Teitur Örn Einarsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Gummersbach er orðaður við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen í SportBild í morgun. Sagt er að Maik Machulla, nýr þjálfari Rhein-Neckar Löwen, leiti að leikmanni til þess að styrkja hægri skyttustöðuna hjá liðinu. Margt bendir til þess að Króatinn Ivan Martinovic fari þegar í sumar til ungverska meistaraliðsins One Veszprém ásamt Mikael Appelgren markverði. Ungverska liðið er tilbúið að greiða 150 þúsund evrur, um 22 milljónir kr til að losa báða leikmenn nú þegar.
Til þess að styrkja hægri skyttustöðuna skoði Machulla markaðinn skömmu áður en æfingar liðsins hefjast. Rhein-Neckar Löwen hefur þegar samið við Danann Edwin Aspenbäck frá Holstebro. Hann er ekki ýkja reynslumikill.
Annar Dani, Jacob Lassen, er einnig í sigtinu en sennilega losnar hann ekki auðveldalega frá HSV Hamburg fyrr en að ári liðnu.
Þá beinast sjónir Machulla m.a. til Teits Arnar sem lék undir stjórn Machulla hjá Flensburg. Gummersbach hefur þrjár örvhentar skyttur á samningi eftir að Kay Smits samdi við félagið á dögunum í viðbót við Teit Örn og Georgíumanninn Giorgi Tskhovrebadze.