Stórskyttan Teitur Örn Einarsson hefur framlengt samning sinn við þýska stórliðið Flensburg til loka júní 2024.
Teitur Örn hefur leikið afar vel fyrir liðið síðan hann kom til þess í lok október en þá skrifaði hann undir samning til næsta vors. Teitur Örn er m.a. nú þegar orðinn næst markahæsti maður liðsins í Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að hafa ekki tekið þátt í fjórum fyrstu leikjunum.
Maik Machulla þjálfari Flensburg er mjög ánæður með hversu fljótt Teitur hefur aðlagast leik liðsins og hversu vel hann hentar liði félagsins en Teitur Örn er jafnvígur að leika sem skytta og hornamaður. Það var ekki síst fyrir þær sakir sem Flensburg hafði augastað á honum í haust þegar margir leikmenn liðsins voru fjarverandi.
Machulla, sem áður hefur líkt Teiti við Alexander Petterson, hrósar honum sérstaklega fyrir líkamlega burði en Teitur hefur verið að skora hæst á öllum testum leikmanna Flensburg.
„Ég er afar ánægður með að fá tækifæri til þess að leika áfram í þýsku 1. deildinni og í Meistaradeild Evrópu. Ég mun legga mig allan fram með liðinu svo það megi ná árangri fyrir framan stuðningsmenn liðsins í Flens-Arena. Ég hlakka til framtíðarinnar,“ er haft eftir Teiti Erni á heimsíðu félagsins þar sem greint er frá tíðindunum.