Reiknað er með á þriðja þúsund áhorfendum á viðureign landsliða Íslands og Tyrklands í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Kastamonu í Tyrklandi á miðvikudaginn. Mikill áhugi er fyrir handknattleik í Kastamonu en þar hefur samnefnt félagslið bækistöðvar. Kastamonu hefur leikið í Meistaradeild Evrópu á yfirstandandi keppnistímabili.

Íslenska landsliðið kom til Kastamonu rétt fyrir hádegið í dag eftir að hafa gist í Istanbúl í nótt. Eftir hádegið var tekið til óspilltra málanna við undirbúning vegna leiksins. Æft var af kappi í keppnishöll borgarinnar, Kastamonu Merkez Sport Hall. Einnig var lagt á ráðin á fundi. Tvær æfingar verða á dagskrá landsliðsins á morgun en leikurinn hefst klukkan 16 á miðvikudaginn.

Úrslit til þessa í 6. riðli undankeppni EM: Serbía - Tyrkland 36:27. Svíþjóð - Ísland 30:17. Tyrkland - Svíþjóð 23:31. Ísland - Serbía 23:21. Serbar og Svíar mætast 3. og 5. mars. Síðustu leikir riðlakeppninnar fara fram í vikunni eftir páska. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér keppnisrétt á EM sem fram fer í desember í þremur löndum; Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu.
Landsliðshópur Íslands
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Ringkøbing Håndbold (35/1).
Hafdís Renötudóttir, Fram (32/1).
Aðrir leikmenn:
Andrea Jacobsen, Kristianstad (27/7).
Berglind Þorsteinsdóttir, HK (8/5).
Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau (30/31).
Elísa Elíasdóttir, ÍBV (2/0).
Harpa Valey Gylfadóttir, ÍBV (10/8).
Helena Rut Örvarsdóttir, Stjarnan (47/80).
Hildigunnur Einarsdóttir, Valur (86/96).
Lovísa Thompson, Valur (25/52).
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, KA/Þór (104/215).
Sandra Erlingsdóttir, EH Aalborg (8/27).
Sunna Jónsdóttir, ÍBV (63/47).
Thea Imani Sturludóttir, Valur (50/77).
Unnur Ómarsdóttir, KA/Þór (34/32).
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (109/319).

Íslenska og tyrkneska landsliðið mætast aftur á Ásvöllum á sunnudaginn. Ókeypis aðgangur verður á þann leik í boði Olís.



