- Auglýsing -
Tékkar unnu öruggan sigur á Eistlendingum, 31:23, í Ostrava Poruba í Tékklandi í dag en lið þjóðanna eru með Íslendingum og Ísraelsmönnum í riðli undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla. Íslenska landsliðið sækir Eistlendinga heim á laugardaginn í annarri umferð þriðja riðils keppninnar.
Tékkar voru fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:13, eftir að hafa verið yfir frá byrjun. Tékkar mæta Ísraelsmönnum í Tel Aviv á sunnudaginn.
Matej Klima var markahæstur hjá Tékkum með sex mörk og Jakub Hrstka var næstur með fimm mörk. Jürgen Rooba og Mihkel Löpp skoruðu fjögur mörk fyrir landslið Eistlands.
Viðureign Íslands og Ísraels hefst klukkan 19.45 á Ásvöllum og verður í textalýsingu á handbolti.is.
- Auglýsing -