- Auglýsing -
Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska 1. deildarliðsins Bergsicher HC, fer inn í nýtt hlutverk hjá félaginu þegar hann hættir að leika handknattleik sumarið 2023. Félagið greindi frá þessu í dag en nokkur uppstokkun stendur fyrir dyrum í kjölfar þess að Sebastian Hinze, þjálfari liðsins undanfarin níu ár hverfur frá störfum á næsta sumri og tekur við þjálfun Rhein-Neckar Löwen.
„Ég spila á næsta tímabil, 2022/2023, en planið er að ég komi inn í þjálfarateymið eftir það,“ sagði Arnór Þór í skilaboðum til handbolta.is í dag. Arnór Þór hefur verið í herbúðum Bergischer frá sumrinu 2012 og hefur enginn leikmaður verið svo lengi með liðinu. Arnór Þór framlengdi samning sinn við félagið í lok síðasta árs.
Á dögunum var greint frá því að Björgvin Páll Gústavsson hafi umsjón með þjálfun markvarða liðsins. Segir í tilkynningu frá félaginu að samstarfið við Björgvin Pál sé þegar farið að skila árangri.
- Auglýsing -