- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tennur losnuðu, kjálki gekk til og hlaut einnig heilahristing

Endijs Kusners, bláklæddur, í leik með Latgols í Lettlandi áður en hann gekk til liðs við Hörð. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Lettinn Endijs Kusners leikur ekki meira með Herði á Ísafirði á þessu keppnistímabili eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg í viðureign Harðar og Fjölnis í Grill 66-deildinni á þriðjudagskvöld. Bragi Rúnar Axelsson, formaður handknattleiksdeildar Harðar, staðfesti þetta í gærkvöld. Hætt er við að Kusners verði lengi af jafna sig.


„Það losnuðu tennur í Kusners, kjálkinn gekk til auk þess sem hann fékk heilahristing og með með mikinn hausverk ennþá,“ sagði Bragi Rúnar í samtali við handbolta.is.

„Hér er um að ræða mikla blóðtöku fyrir okkar þunnskipaða lið. Verra finnst mér að Fjölnismaðurinn sýndi enga iðrun, baðst ekki afsökunar og athugaði ekki einu sinni hvernig hann hefði það,“ sagði Bragi Rúnar sem er ennfremur ómyrkur í máli vegna framkomu dómara leiksins sem hann segir að hafi sagt að um leikaraskap væri að ræða hjá Kusners.


Mikið hefur verið rætt og ritað um afleiðingar höfuðhögga í íþróttum undanfarin ár og talað um vitundarvakningu í þeim efnum eins og svo mörgu öðru. Harðarmenn þekkja vel hversu langvarandi og alvarlegar afleiðingar höfuðhögga geta verið. Anton Freyr Traustason, leikmaður Harðar, glímir enn við afleiðingar höfuðhöggs sem hann varð fyrir í upphafi keppnistímabilsins, svo dæmi sé tekið.


Kusners, sem er 18 ára gamall kom til liðs við Hörð um áramótin. Hann hefur skorað 43 mörk í 13 leikjum Harðar í Grill 66-deildinni. Kusners var fastamaður í liði Latgols í Lettlandi, heimalandi sínu og gert það gott. M.a. var Kusners markahæsti leikmaður Eystrasaltsdeildarinnar um áramótin og hafnaði í þriðja sæti þegar keppnin var gerð upp í mótslok þrátt fyrir hafa aðeins tekið þátt í fimm leikjum af níu.


„Hér er á ferðinni 18 ára strákur og landsliðsmaður síns heimalands sem á framtíðina fyrir sér,“ segir Bragi Rúnar.


Hörður tekur á móti Víkingi í lokaumferð Grill 66-deildarinnar annað kvöld. Harðarmenn hafa blásið á allar spár fyrir keppnistímabilið þar sem búist var við að þeir féllu úr deildinni. Raunin hefur orðið önnur. Hörður hefur 11 stig eftir 17 leiki og hefur öðlast sæti í undanúrslitum umspilsins um sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -