- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þarf að feta einstigi við endurhæfingu til að ná EM

Elvar Örn Jónsson veifar til áhorfenda fyrir leik við Færeyinga í Laugardalshöll í nóvember. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska liðsins MT Melsungen er í kapphlaupi við tímann um að ná fullri heilsu áður en Evrópumót landsliða í handknattleik hefst í Þýskalandi 10. janúar. Eftir að hafa átt sitt besta tímabil á ferlinum í atvinnumennsku þá tognaði Elvar Örn á kviðvöðva undir lok leiks Melsungen og Eisenach 24. nóvember. Hann er bjartsýnn á að verða klár í slaginn með landsliðinu í tíma. Við endurhæfingu verður Elvar Örn að feta einstigi, þræða leiðina á milli þess að reyna hvorki of lítið né of mikið á sig.

Vonandi góður fyrir EM

„Þetta eru álagsmeiðsli og þau batna ekki ekki nema jafnt og þétt. Ef ég fer of geyst af stað lendir maður á byrjunarreit. Vonandi verð ég orðinn góður fyrir mót,“ sagði Elvar Örn í samtali við handbolta.is í gær. Hann hefur verið í góðum höndum frá fyrsta degi enda hæg heimatökin því faðir Elvars Arnar er Jón Birgir Guðmundsson þrautreyndur sjúkraþjálfari sem um árabil hefur unnið með íþróttafólki.

Að auka álagið jafnt og þétt

„Síðustu vikur hefur ég fylgt eftirhæfingarprógrammi frá pabba og Örnólfi lækni [Valdimarssyni] undir handleiðslu styrktarþjálfarans hjá Melsungen. Batinn er góður og ég er á góðri leið. Næst á dagskrá er að auka álagið jafnt og þétt, það er að gera allar æfingar hraðar. Ég verð að fara hægt af stað. Ef ég fer of geyst eru meiri líkur á að upp úr þessu rifni og ég verði að byrja á upp á nýtt. Maður verður að hlusta vel á líkamann,“ sagði Elvar Örn sem mættur var með samherjum sínum í íslenska landsliðinu í Safamýri í gærmorgun þegar formlegur undirbúningur fyrir Evrópumótið hófst.

Elvar Örn vonast til að verða klár í slaginn á EM 12. janúar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Var upp á sitt besta

Elvar Örn sagði það hafa verið áfall að verða fyrir þessum alvarlegu meiðslum eftir að hafa átt frábært tímabil, hans besta eftir komuna til Melsungen sumarið 2021.

„Ég var stærra hlutverk í liðinu en áður og fann mig mjög í því. Á sama tíma gekk liðinu afar vel og verið í toppbaráttu í þýsku 1. deildinni. Mér fannst ég vera á mjög góðu róli áður ég meiddist. Þetta er verkefni sem verður að fást við. Ég hef svo sem áður tekist á við erfið meiðsli og sigrast á þeim svo þetta er ekkert nýtt fyrir mér,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður MT Melsungen sem stefnir ótrauður á að verða klár í slaginn með landsliðinu á EM í Þýskalandi.

EM í handknattleik karla hefst 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. 
Leikir Íslands í C-riðli EM í München:
12. jan.: Ísland – Serbía, kl. 17.
14. jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17.
16. jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -