- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þarf þýska meistaraliðið að leita að markverði?

Franski markvörðurinn Vincent Gerard. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þýska meistaraliðið THW Kiel varð fyrir miklu áfalli í æfinga- og keppnisferð til Austurríkis. Báðir aðalmarkverðir liðsins meiddust og er hugsanlegt að þeir verði frá æfingum og keppni um skeið. Aðeins er rúmur hálfur mánuður þangað til keppni hefst í þýsku 1. deildinni.


Sportbild segir frá ótíðindunum í dag. Þar kom fram að tékkneski landsliðsmarkvörðurinn Tomáš Mrkva hafi fengið höfuðhögg á æfingu í vikunni. Hlaut hann heilahristing og verður af þeim sökum frá keppni um ótiltekinn tíma.

Tomáš Mrkva markvörður Kiel og tékkneska landsliðsins í leik Íslands og Tékklands í Laugardalshöll í mars. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Til að bæta gráu ofan á svart þá meiddist franski landsliðsmarkvörðurinn Vincent Gérard eftir aðeins tvær mínútur í æfingaleik THW Kiel og Gorenje Velenje í Graz í gær. Gérard gengst undir rannsóknir í dag en forráðamenn Kiel óttast það versta.

Gérard kom til Kiel í sumar og á að fylla skarð danska landsliðsmarkvarðarins Niklas Landin sem flutti heim til Danmerkur og gekk til liðs við Aalborg Håndbold.


Magnus Bierfreund 19 ára markvörður stendur einn eftir ásamt markvarðaþjálfaranum Mattias Andersson sem orðinn er 44 ára gamall. Andersson tók síðast fram skóna fyrir tveimur árum og gæti þurft að gera það aftur enda virðist kappinn vera í ágætu líkamlegu formi ef marka má ljósmyndir.

Ekki er um auðugan garð að gresja á leikmannamarkaðnum svo skömmu áður en keppnistímabilið hefst ef Kiel verður að krækja í markvörð verði Gérard og Mrkva lengi frá keppni. Alveg er óvíst hversu lengi Mrkva verður frá keppni enda heilahristingur alvarlegt mál.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -