- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þegar komið er inn á völlinn þá er þetta bara leikur“

Stiven Tobar Valencia kominn eftirlætisstöðu á leikvellinum, nýbúinn að kasta boltanum á marki andstæðingsins eftir hraðaupphlaup. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það er draumur okkar allra sem æfum handbolta að komast í landsliðið, markmið sem maður vill ná,“ sagði Stiven Tobar Valencia leikmaður Vals þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir að hann var valinn í fyrsta sinn í íslenska landsliðið í gær. Landsliðið mætir Tékkum heima og að heiman 8. og 12. mars.

Stiven er 22 ára gamall og leggur stund á nám í lífeindafræði. Hann hefur unnið hjá Alvotech auk þess að vinna sem DJ (kallað skífuþeytari á árum áður) á skemmtunun. „Maður hefur mikið að gera og stundum hef ég ekki nægan tíma til þess að sinna þessu öllu saman með handboltanum. En þótt maður sé með mörg járn í eldinum þá er ákveðin hvíld í því líka að skipta á milli hlutverka, dreifa huganum frá handboltanum. Svo er bara spurningin um hlutföllin og hvernig maður dreifir kröftunum,“ segir Stiven.

Heiður að vera valinn

„Ég lék með yngri landsliðunum og það vitanlega eitthvað sem maður hefur stefnt að einn daginn, það er að leika með A-landsliðinu. Það er mikill heiður að vera valinn í landsliðið, hvort sem um er að ræða yngri landsliðin eða A-landsliðið og nú sér maður fram á fyrsta A-leikinn á næstunni sem er spennandi,“ sagði Stiven sem farið hefur á kostum með Val á keppnistímabilinu. Hann er m.a. með markahæstu leikmönnum í Evrópudeildinni um þessar mundir.

Með báða fætur á jörðinni

Nokkur umræða var uppi í aðdraganda nýliðins heimsmeistaramóts hvort Stiven ætti að vera einn þeirra sem skipuðu keppnishópinn sem fór út á mótið. Hann fór ekki en var í 35 hópnum sem þáverandi landsliðsþjálfari hafði til taks ef kalla hefði þurft inn leikmenn. Stiven segist hafa verið með báða fætur á jörðinni. Samkeppni um sæti í landsliðinu væri mikil. Ekki væri hægt að ganga að einhverju vísu þótt menn léku vel því margir væru um hituna í öllum stöðum landsliðsins.

Stiven Tobar á auðum sjó í leik við ungverska liðið FTC í Evrópudeildinni. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Fyrst og fremst þakklátur

„Ég hafði ekki miklar væntingar um að verða valinn í hópinn fyrir HM en umræðan var vissulega talsverð. Ég vissi að ekkert væri víst í þeim efnum og reyndi að láta þetta hafa sem minnst áhrif á mig. Samkeppnin um sæti er mikil en ég var fyrst og fremst ánægður og þakklátur fyrir að vera með í umræðunni,“ sagði Stiven afslappaður. Hann viðurkennir að hafa verið afar glaður þegar Gunnar Magnússon starfandi landsliðsþjálfari hringdi og sagði að hann yrði með í leikjunum við Tékka.

Hæfilegar væntingar

Stiven segist mæta til leiks með hæfilegar væntingar um spiltíma í leikjunum tveimur enda er hann annar vinstri hornamaður liðsins með Bjarka Má Elíssyni.

„Maður verður bara að nýta vel þann tíma sem maður fær. Maður er jú bara að byrja. Svo getur líka vel verið að ég fái tækifæri í vörninni, ekkert síður en í sókninni,“ svaraði Stiven spurður um hugsanlegt hlutverk. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sina í bakvarðarhlutverki í vörn Vals.

„Mér hefur gengið vel að halda einbeitingu. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að öll athyglin, umræðan og álagið hefur reynt á andlegu hliðina eins og þá líkamlegu. Ég hef reynt að vinna með álaginu. Þegar komið er inn á völlinn þá er þetta bara leikur, spila handbolta og hafa gaman af.“

Miklar annir

Miklar annir hafa verið hjá Stiven eins og öðrum leikmönnum Vals á keppnistímabilinu. Þátttakan í Evrópudeildinni hefur verið nýr skóli fyrir flesta með tilheyrandi ferðalögum, fleiri leikjum og auknu álagi. Stiven segist ekki kvarta. Hann hafi gaman að þessu og standi nú orðið í þeim sporum að hugsa stundum um fátt annað en æfingar, leiki og ferðalög og auk þess að hugsa vel um líkamann milli leikja.

Tveir leikir á viku og ferðalög

„Það hefur verið nóg að gera hjá mér síðustu vikur og mánuði og nú hef ég verið valinn í landsliðið og ljóst að ekki verður minna um að vera. Síðan í haust hefur maður spilað nánast tvo leiki á viku, í deild, bikar og síðan í Evrópudeildinni. Þessu hefur fylgt ferðalög. Maður hefur lítið getað hugsað um annað en handbolta. Segja má að maður sé bara kominn á fulla ferð í handboltanum.

Stiven Tobar Valencia, mikilvægast leikmaður úrslitakeppni Olísdeildarinnar 2022. Mynd/HSÍ


Þetta er skemmtilegt þó álagið sé mikið. Markmiðið er bara að ná eins góðum árangri í hverjum leik sem maður fer í,“ sagði Stiven sem á leik með Val gegn ÍR í kvöld í Olísdeildinni og eftir það tekur við ferð til Ystad í Svíþjóð og síðasti leikur í riðlakeppni Evrópudeildarinnar síðdegis á þriðjudaginn. Tveir leikir til viðbótar verða í Evrópudeildinni í mars, eftir landsleikina.

Stiven fer ekki í grafgötur með að einn draumur sinn sé að fara út til Evrópu og leika sem atvinnumaður í handknattleik hjá góðu félagi á skemmtilegum stað. Hann útilokar ekki vistaskipti eftir tímabilið en segir ekkert hafa verið ákveðið ennþá.

Hefur fundið fyrir áhuga

„Það væri gaman að geta farið út í atvinnumennsku eftir tímabilið en ég hef ekki ákveðið neitt ennþá. Ég hef fundið fyrir áhuga og fengið samtöl en það er ekkert í hendi fyrr en maður hefur skrifað undir. Á meðan svo er þá er bara um vangaveltur að ræða,“ segir Stiven Tobar Valencia nýjasti landsliðsmaður Íslands í handknattleik karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -