- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þeir eru mjög kvikir“

Gunnar Magnússon, aðstoðarlandsliðsþjálfari, er mættur til leiks. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Sennilega hefur enginn Íslendingur horft á og rýnt eins mikið í handboltaleiki með landsliði Alsír á undanförum vikum og Gunnar Magnússon aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik. Gunnar vinnur þétt með Guðmundi Þórði Guðmundssyni, landsliðsþjálfara, og leikmönnum landsliðsins að undirbúningi fyrir leikinn við Alsír á HM í kvöld sem hefst klukkan 19.30.


„Alsírbúar eru allt öðruvísi andstæðingur en Portúgal. Þeir eru ekki eins líkamlega sterkir en hinsvegar talsvert sneggri í hreyfingum. Þeir eru mjög kvikir,“ sagði Gunnar.

„Alsírbúar leika sex núll vörn eða fimm einn, á nokkuð hefðbundinn hátt. Eru kannski aðeins agressívari en margir aðrir. Síðan geta þeir farið í annan varnarleik en eru samt ekki eins villtir og Marokkómenn. En við verðum að búa okkur undir eitt og annað því þeir geta verið óhræddir að reyna eitt og annað,“ sagði Gunnar þegar handbolti.is truflaði hann frá klippivinnunni í gær.

Brottrekstrar og rauð spjöld

„Í sóknarleiknum þá hafa þeir ágæta leikmenn. Rétthent skytta í peysu númer sex er mjög góður. Eins hefur alsírska liðið góða örvhenta leikmenn. Hinsvegar er leikur þeirra mjög óagaður, jafnt í vörn sem sókn. Fyrir vikið eru leikmenn oft út af í kælingu og nokkur rauð spjöld í leik er ekki óalgengt.“


Gunnar segir að vegna þess hversu fáa leiki Alsírbúar hafa leikið gegn evrópskum landsliðum um nokkurt skeið sé erfitt að setja fingur á styrkleika þeirra. „Þeir léku hörkuleiki við Túnis og Egyptaland á Afríkumótinu í fyrra sem þeir töpuðu naumlega. Það segir okkur kannski talsvert um hversu hættulegur andstæðingur alsírska liðið er um þessar mundir,” sagði Gunnar og leggur áherslu á að það sé þolinmæðisverk að brjóta lið Alsír á bak aftur.

Þolinmæði skiptir öllu máli

„Þeir eru villtir og við verðum að vera agaðir og þolinmóðir gegn þeim. Við megum alls ekki hleypa þeim í hraðaupphlaup í miklu mæli. Agaður sóknarleikur er lykill okkar gegn þeim vegna þess að þeir eiga það til að missa þolinmæðina þegar á leikinn líður,” sagði Gunnar Magnússon aðstoðarlandsliðsþjálfari og var þar með horfinn aftur á bak við tölvuskjáinn.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -