- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta er alveg geggjað“

Viktor Gísli Hallgrímsson og Stig Tore Moen Nilsen glaðir í bragði þegar þeir urðu bikarmeistarar með GOG í haust. Nú hefur deildarbikarinn bæst í safnið. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Ég er í sjöunda himni. Þetta er alveg geggjað enda um að ræða minn fyrsta stóra bikar í meistaraflokki,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik og nýkrýndur danskur bikarmeistari þegar handbolti.is náði tali af honum áðan skömmu eftir að hann hafði verið krýndur bikarmeistari með liðinu sínu GOG.


GOG vann Team Tvis Holstebro, sem Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með, í hörku úrslitaleik, 30:28. Viktor Gísli lék úrslitaleikinn í dag frá upphafi til enda og fær góða dóma fyrir frammistöðu sína, bæði í undanúrslitaleiknum í gær og í úrslitaleiknum í dag.


„Það er æðislegt að fá traust frá þjálfaranum til að taka þátt í þessum stórleikjum. Mér gekk nokkuð vel í dag, hlutfallsmarkvarslan var um þrjátíu og þrjú prósent. Eitthvað lak samt inn, kannski vegna þess að það var örlítil þreyta í manni eftir undanúrslitaleikinn í gær. En gullið eru verðlaunin og það er sætt,“ sagði Viktor Gísli sem ætlar að fagna í kvöld með félögum sínum. Gleðskapurinn verður hófstilltur að sögn Viktors Gísla vegna þess að í fyrramálið heldur GOG-liðið til Sviss þar sem það mætir Pfadi Winterthur á þriðjudagskvöldið.


Um verður að ræða síðari leik liðanna í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Stórleikur Viktors Gísla átti hvað stærstan þátt í níu marka sigri GOG á heimavelli á síðasta þriðjudag, 33:24. Viktor Gísli var með 42,5% hlutfallsmarkvörslu í þeim leik.


„Það er mikið prógramm þessa dagana, sem er ekkert nema gaman,” sagði Viktor Gísli áður en handbolti.is hleypti honum aftur í fögnuðinn með samherjum sínum en sigurinn í dag er sá fyrsti hjá GOG í bikarkeppninni í 15 ár en 13 ár eru liðin síðan liðið var síðast danskur meistari.

„Þessi titill risastór fyrir félagið og það er frábært að vera þátttakandi í þessu,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson í blálokin. Hann er á sínu öðru keppnistímabili með danska liðinu aðeins tvítugur að aldri.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -