- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta er bara alveg geggjað“

Harpa Valey Gylfadóttir og Birna Berg Haraldsdóttir leikmenn ÍBV hressar í bragði. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Þetta er bara alveg geggjað. Ég er bara mjög sátt, er hreinlega í skýjunum,“ sagði Harpa Valey Gylfadóttir, annar af tveimur markahæstu leikmönnum ÍBV í dag þegar liðið vann Stjörnuna öðru sinni, 29:26, og tryggði sér um leið sæti í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik. Sigurinn var afar öruggur því ÍBV hafði sjö marka forskot þegar skammt var til leiksloka. Harpa Valey skoraði átta mörk að þessu sinni og var eðlilega í sjöunda himni.

„Planið var að halda áfram í dag eins og við lékum á fimmtudaginn á heimavelli gegn Stjörnunni. Það var einn af okkar bestu leikjum, að mínu mati. Stemningin var frábær og varnarleikurinn æðislegur auk þess sem markvarslan var einnig mjög góð. Vörnin og markvarslan vinnur leikinn. Til viðbótar fengum við auðveldu mörkin eftir hraðaupphlaup. Nú var bara það sama upp á teningnum,“ sagði landsliðskonan, Harpa Valey, sem átti frábæran leik í TM-höllinni í dag.


„Það er bara geggjað að vinna og með þennan stuðning. Frábært að horfa upp í stúkuna eftir leikinn. Mikil breyting frá því í vetur þegar við vorum að spila fyrir tómu húsi,“ sagði Harpa Valey en nokkur hópur Eyjamanna mætti á leikinn í TM-höllinni í dag og lét vel í sér heyra á áhorfendapöllunum.


ÍBV mætir KA/Þór í undanúrslitum og verður fyrsti leikurinn á Akureyri eftir viku. „Það verður bara spennandi að mæta KA/Þór. Að sama skapi var nauðsynlegt að klára þetta einvígi í dag og fá viku pásu til að safna kröftum,“ sagði Harpa Valey Gylfadóttir, leikmaður ÍBV og landsliðskona í samtali við handbolta.is í TM-höllinni í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -