„Það er spennandi leikir framundan sem ég hef horft til með eftirvæntingu,“ sagði Jóhanna Margrét Sigurðardóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is áður en landsliðið hélt af landi brott til þess að leika annan af tveimur leikjunum sem eftir eru í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik.
Í Lúxemborg í dag
Íslenska landsliðið mætir landsliðið Lúxemborgar ytra í dag og færeyska landsliðinu á Ásvöllum á sunndaginn. Stefna íslenska liðsins er að vinna báðar viðureignir og tryggja sér annað sæti 7. riðils undankeppninnar.
Leikurinn við Lúxemborg hefst í dag klukkan 16.45 verður sendur á vegum RÚV. „Þetta er í okkar höndum,“ sagði Jóhanna Margrét sem hefur leikið vel með sænska liðinu Skara HF í vetur. Hún tekur þátt í sínum 14. landsleik í dag.
Verðum að ná toppleik
„Þetta snýst um hvernig við mætum í leikinn,“ svaraði Jóhanna Margrét hvort spenna væri mikil innan hópsins vegna þess hversu mikið er undir, sæti í lokakeppni Evrópumótsins. „Við verðum að ná toppleik til þess að fara með góða tilfinningu inn í Færeyjaleikinn á sunnudaginn á heimavelli.
Stefnan er að vinna báða leiki og komast áfram sem liðið í annað sætið úr riðlinum,” sagði Jóhanna Margrét sem nýtti vel tækifæri sitt í síðari viðureigninni við Svía fyrir um mánuði. Reikna má með að hún fái einnig drjúgt hlutverk í viðureigninni dag við Lúxemborg.
Hafði beðið
„Ég var ánægð með mitt framlag í Svíaleiknum. Ég hafði beðið lengi eftir að fá gott tækifæri og ég held að mér hafi tekist að sýna hvað í mér býr,“ sagði Jóhanna Margrét Sigurðardóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Úrslit leikja í 7. riðli undankeppni EM:
Ísland – Lúxemborg 32:14 (19:7).
Svíþjóð – Færeyjar 37:20 (19:13).
Færeyjar – Ísland 23:28 (12:11).
Lúxemborg – Svíþjóð 17:39 (7:15).
Lúxemborg – Færeyjar 16:34 (9:16).
Ísland – Svíþjóð 24:37 (12:17).
Svíþjóð – Ísland 37:23 (18:11).
Færeyjar – Lúxemborg 39:21 (17:9).
Lúxemborg – Ísland, 3. apríl.
Færeyjar – Svíþjóð, 3. apríl.
Svíþjóð – Lúxemborg, 7. apríl.
Ísland – Færeyjar, 7. apríl.
Staðan:
Svíþjóð | 4 | 4 | 0 | 0 | 150:84 | 8 |
Ísland | 4 | 2 | 0 | 2 | 107:111 | 4 |
Færeyjar | 4 | 2 | 0 | 2 | 116:102 | 4 |
Lúxemborg | 4 | 0 | 0 | 4 | 68:144 | 0 |