„Við áttum bara ekki góðan leik í dag,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona og leikmaður þýska toppliðsins Blomberg-Lippe í samtali við handbolta.is eftir jafntefli þýska liðsins og Vals, 22:22, í síðari viðureigninni í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í N1-höllinni á Hlíðarenda. Eftir 13 marka sigur í fyrri viðureigninni þá fer Blomberg-Lippe áfram í riðlakeppni Evrópudeildar en Valur situr eftir.
„Við rúllum vel á liðinu og nokkrar sem spila venjulega ekki mikið fengu gott tækifæri að þessu sinni. Engu að síður var of mikil værukærð yfir okkur. Eitthvað sem lagt var upp með að mætti ekki að eiga sér stað. Svo dró Hafdís markvörður Vals aðeins tennurnar úr sumum,“ sagði Díana og benti á að varnarleikur Blomberg-Lippe hafi verið ágætur en sóknarleikurinn að sama skapi ekki.
„Við skoruðum 22 mörk sem er of lítið. Okkur tókst aldrei að ná upp þeim hraða í sóknarleikinn sem við viljum. Þetta var bara alls ekki nógu gott. Við náðum ekki upp þeirri grimmd sem við viljum alla jafna sýna,“ sagði Díana Dögg sem ásamt a.m.k. sex samherjum sínum fer að snúa sér að undirbúningi fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst eftir 10 daga.
Díana Dögg lék að þessu sinni fyrsta keppnisleik með félagsliði hér á landi síðan hún fór frá Val sumarið 2020.
Lengra viðtal við Díönu Dögg er í myndskeiði ofar í þessari frétt.
Okkur tókst að sýna okkar rétta andlit
Skrýtið að spila á móti bestu vinkonunum




