„Þetta var markmið okkar fyrir tímabilið, það er að fara upp í Olísdeildina. Við höfum ekkert farið í grafgötur með að við settum saman lið til þess að fara upp úr Grill 66-deildinni. Því miður tókst það ekki í fyrstu tilraun enda Selfoss með frábært lið. Þá var bara ákveðið að taka næst kost í stöðunni og það var að vinna umspilið,“ sagði sigurreifur þjálfari Gróttu, Sigurjón Friðbjörn Björnsson, við handbolta.is í kvöld eftir að Grótta vann Aftureldingu í úrslitum umspils Olísdeildar kvenna, 22:21, og innsiglaði þar með sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.
Sigríður Unnur Jónsdóttir er þjálfari Gróttu ásamt Sigurjóni Friðbirni.
„Þetta gekk hjá okkur,“ bætti Sigurjón Friðbjörn við heldur betur glaður í bragði rétt eftir að spennandi leik lauk að Varmá í Mosfellsbæ. Grótta fékk frábæran stuðning fjölmargra Seltirninga sem lögðu leið sína á leikinn í veðurblíðunni.
Löngunin skein úr andlitunum
„Þetta snerist um vilja og hann var fyrir hendi hjá okkur. Við ætluðum alltaf að sýna, hvort sem við myndum vinna eða ekki, að okkur langaði. Út á það gekk þetta og mér fannst löngunin skína úr andlitum okkar, ekki síst í tveimur síðustu leikjunum,“ bætti Sigurjón Friðbjörn við en Grótta vann næst síðasta leikinn í vítakeppni.
„Það var karakter og sjálfsöryggi í því sem við vorum að gera, þess varð vart að leikmenn ætluðu að selja sig dýrt og þeir uppskáru samkvæmt því,“ sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson þjálfari Gróttu við handbolta.is að Varmá í kvöld.
Sjá einnig:
Myndskeið: Sigurstund Gróttu að Varmá
Umspil Olís kvenna: leikjadagskrá og úrslit