- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Þetta var rosalegt“

Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir
- Auglýsing -

„Þetta var rosalegt,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari kvennaliðs ÍBV við handbolta.is eftir að liðið vann PAOK með sjö marka mun, 29:22, í síðari leik liðanna í Evrópubikarkeppninni í handknattleik í dag en leikið var í Grikklandi. Sigurinn tryggði ÍBV samanlagðan tveggja marka sigur í leikjunum tveimur og sæti í þriðju umferð keppninnar. Dregið verður á þriðjudaginn.

Í sjöunda himni frá Grikklandi

Sigurður var skiljanlega ekki búinn að ná sér niður eftir leikinn þegar slegið var á þráðinn til hans. „Þetta er bara einn svakalegasti sigur sem maður hefur tekið þátt á ferlinum og hefur maður nú upplifað margt. Örugglega er þetta flottasti liðssigur sem ég hef tekið þátt í sem þjálfari.

Sigurður Bragason þjálfari og Elísa Elísdóttir sem átti stórbrotin leik í dag fagna sigrinum. Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir

Ég átti svo sannarlega ekki von á svona stórum sigri áður en flautað var til leiks. Eftir fimm marka tap í gær þá var markmið okkar að vinna leikinn í dag, bæta okkur og fara sáttar héðan frá Grikklandi. En að vinna stóran sigur og fara í sjöunda himni frá Grikklandi var meira en mig dreymdi um,“ sagði Sigurður ennfremur.

Mögnuð orka

Sigurður lýkur miklu lofsorði á alla leikmenn liðsins. Þeir hafi sýnt hinn eina sanna siguranda sem einkenni Vestmannaeyinga. „Orkan var mögnuð í liðinu. Leikmenn hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa. Varnarleikurinn var frábær. Okkur tókst að loka mikið fyrir línumennina sem eru öflugir. Síðan fengum við mörg hraðaupphlaup og skoruðum helling af mörkum upp úr hraðaupphlaupum og seinni bylgju,“ sagði Sigurður og bætti við.

Sigurgleði þegar flautað var til leiksloka í Þessalóníku. Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir

Var betri síðasta korterið

„Ég notaði aðallega níu leikmenn og óttaðist að það kæmi í bakið á mér síðasta korterið í dag. Sú varð alls ekki raunin. Það var bara eins og Sunna væri bara betri síðasta korterið en í byrjun leiksins. Löngunin eftir sigri skein í gegn hjá öllum,“ sagði Sigurður og bætti við að hans lið hefði staðist öll áhlaup.

Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir

Stjórnarmenn svitna

Á þriðjudaginn kemur í ljós hver verður næsti andstæðingur í ÍBV í keppninni. Sigurður sagðist hlakka til framhaldsins enda væri þátttakan mikill og góður skóli fyrir leikmenn þótt vissulega kosti það sitt að taka þátt.

„Stjórnarmennirnir svitna en hvað er það. Er ekki loðnuvertíð framundan? Við reddum okkur alltaf. Við viljum taka taka þátt og vinna og þá verðum við að mæta því sem fylgir sigrunum og því að taka skref til framfara,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV, heldur betur kátur þegar handbolti.is sló á þráðinn til Þessalóníku í dag.

Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -