Andreas Michelmann, forseti þýska handknattleikssambandsins, er ómyrkur í máli eftir þing Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, sem lauk á sunnudaginn í Kaíró. Hann segir þingið hafa verið farsa og alþjóðlegum handknattleik til minnkunar.
Þýska handknattleikssambandið studdi dyggilega framboð Gerd Butzeck til forseta IHF. Hann steinlá í kosningunni við þriðja mann en Hassan Moustafa, forseti IHF síðustu 25 ár, fékk ríflega 73% atkvæða.
„Framkvæmd þingsins var farsi og alþjóða handknattleikshreyfingunni til skammar,“ sagði Michelmann eftir kosningarnar, þar sem tæknileg vandamál seinkuðu atkvæðagreiðslunni um nokkrar klukkustundir.
„Við verðum þó að sætta okkur við niðurstöðuna og draga okkar ályktanir um leið. Við óskum Hassan Moustafa til hamingju með sigurinn og óskum honum einnig heilsu og styrks til starfa næstu fjögur ár,“ segir Michelmann á heimasíðu þýska handknattleiksambandsins.



