Forráðamenn Ribe-Esbjerg, þar sem þrír íslenskir handknattleiksmenn leika, hefur ákveðið að styrkja þjálfarateymi sitt og freista þess að blása lífi í liðið sem hefur farið afleitlega af stað í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
Ákveðið hefur verið að Mathias Madsen komi til starfa við hlið þjálfarans Kristian Kristensen í stað þess að láta þann síðarnefnda taka pokann sinn og fá inn nýjan þjálfara. Ribe Esbjerg hefur aðeins þrjú stig og er í 12. sæti af 14 liðum dönsku úrvalsdeildarinnar að loknum 10 leikjum. Er það talsvert undir væntingum enda hefur nokkru verið kostað til liðsins á undanförnum árum með von um annan og betri árangur.
Madsen og Kristensen hafa áður starfað saman sem jafningjar. Þeir voru þjálfarar kvennaliðs FC Midtjylland frá 2016 til 2019. Madsen stýrði kvennaliði Herning-Ikast til sigurs í bikarkeppninni á síðasta tímabili en hætti störfum í sumar vegna ágreinings við stjórn félagsins.
Svíinn Jonas Larholm verður áfram aðstoðarþjálfari og því ljóst að ekki mun skorta á skoðanir í herbúðum Ribe-Esbjerg um hvernig skuli snúa lukkuhjólinu til meiri gæfu.
Íslendingarnir þrír hjá Ribe-Esbjerg er Daníel Þór Ingason, Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason.