Ljumomir Vranjes, þjálfari sænska handknattleiksliðsins IFK Kristianstad var látinn taka pokann sinn í morgun. Félagið tilkynnti uppsögnina í morgun. Vranjes tók við þjálfun IFK snemma árs 2019 og undir hans stjórn var liðið deildarmeistari á síðustu leiktíð.
Með Kristianstad leika Íslendingarnir Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson.
Ekki er ljóst enn hver tekur við en Ulf Larsson stýrði æfingu liðsins í morgun, eftir því sem greint er frá í sænskum fjölmiðlum. Larsson hefur verið hluti af þjálfarateymi liðsins.
Árangur Kristianstad hefur verið undir væntingum á leiktíðinni. Reyndar gekk vel framan af í sænsku úrvalsdeildinni en eftir því sem álagið jókst hafa úrslitin orðið óhagstæðari. Nú er svo komið að Kristianstad situr í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og hefur tapað sjö af 16 leikjum. Það þykir forráðamönnum félagsins vera merki um að gera verði breytingar.
Vranjes er einn þekktasti handknattleiksmaður Svíþjóðar og var einn burðarása hins þekkta sænska landsliðs á tíunda áratug síðustu aldar. Hann hætti að leika handbolta 2009 og tók þá við þjálfun Flensburg í Þýskalandi. Þar var hann við stjórnvölin til 2017 en hefur síðan víða komið við, bæði sem félagsþjálfari og eins sem landsliðsþjálfari. Hann er um þessar mundir landsliðsþjálfari Slóvena í karlaflokki.