Aganefnd HSÍ hefur áminnt handknattleiksdeild Þórs fyrir að þjálfari liðsins, Stevce Alusovski, hafi haft afskipti af liði sínu þegar hann tók út fyrra leikbann sitt þegar viðureign Þórs og Harðar fór fram í Grill66-deild karla á síðasta laugardag.
Þetta kemur fram í fundargerð aganefndar sem birt var í dag á vef HSÍ. Þar er ennfremur greint frá að Tomislav Jagurinovski, leikmaður Þórs, hafi verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna útilokunar sökum óíþróttamannslegrar framkomu í viðureign Þórs og Harðar.
Eins og handbolti.is greindi frá eftir leikinn var Jagurinovski sýnt rautt spjald fyrir framkomu í garð dómaranna eftir að flautað hafði verið til leiksloka. Þór vann Hörð, 31:30.
Landarnir, Jagurinovski og Alusovski, verða þar með saman í banni í fyrsta leik Þórs í Grill66-deildinni í byrjun nýs árs. Alusovski var á dögunum úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir að hóta dómurum í viðureign Þórs og ungmennaliðs Vals. Þar af leiðandi tók hann út leikbann í leik Þór og Harðar sem fram fór Íþróttahöllinni á Akureyri á síðasta laugardag.
Samkvæmt skýrslu dómarar sem vitnað er til fyrrgreindum úrskurði aganefndar mun hann ekki hafa getað setið á strák sínum.
Næsti leikur Þórs í Grill66-deildinni verður við ungmennalið Hauka 15. janúar.
Tandri Már Konráðsson, Stjörnunni og ÍR-ingarnir Laufey Lára Höskuldsdóttir og María Leifsdóttir sem öll fengu útilokun í kappleikjum á síðustu dögum sluppu við leikbann en voru minnt á á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
Fundargerð aganefndar HSÍ má lesa hér.