Þýskaland varð í kvöld í fyrsta sinn heimsmeistari í handknattleik karla í flokki 19 ára landsliða eftir maraþonleik við Spán í Kaíró, 41:40. Viðureignin var tvíframlengt en úrslit fengust ekki fyrr en í bráðabana í vítakeppni. Þjóðverjar höfðu þá betur, skoruðu úr tveimur vítaköstum í bráðabana en Spánn úr einu. Finn Knaack, markvörður þýska landsliðsins, varði vítakast í annarri umferð bráðabana.
Áður höfðu liðin skorað úr þremur vítaköstum hvort af fimm mögulegum.
Aldrei fyrr hefur úrslitaleikur 19 ára landsliða karla á heimsmeistaramóti verið framlengdur. Fyrsta heimsmeistaramótið í þessu aldursflokki fór fram fyrir 20 árum í Katar og lauk með sigri sameiginlegs liðs Serba og Svartfellinga.
Spánverjar unnu heimsmeistaramót 19 ára landsliða fyrir tveimur árum í Króatíu.
Fóru illa að ráði sínu
Spánverjar byrjuðu leikinn betur í dag og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14. Síðari hálfleikur var hinsvegar hnífjafn og æsilega spennandi. Eftir 60 mínútur var staðan jöfn, 27:27. Að lokinni fyrri framlengingu var jafnt, 31:31.
Spánverjar fóru illa að ráði sínu undir lok síðari framlengingar þegar þeir voru komnir með þriggja marka forskot, 36:33, þegar 90 sekúndur voru eftir. Leikmenn spænska liðsins gerðu hvert axarskaptið á síðustu mínútunni sem þýsku piltarnir nýttu sér til þess jafna metin og tryggja sér framlengingu.
Danir hlutu bronsverðlaun mótsins. Þeir lögðu granna sína, Svía, 33:31, í hnífjöfnum og spennandi leik.
Beint: Spánn – Þýskaland, 1. sæti HM19 ára, kl. 16.30