Þýska handknattleikssambandið hefur ákveðið að styðja framboð Gerd Butzeck til embættis forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, á þingi IHF sem haldið verður í Kaíró í Egyptalandi 19.- 22. desember. Ekki liggur fyrir hvort Egyptinn Hassan Moustafa forseti IHF síðasta aldarfjórðung gefur kost á sér til endurkjörs. Moustafa verður 81 árs í júlí.
Frestur til þess að lýsa yfir framboði rennur út 21. september.
Þýska sambandið samþykkti einróma að styðja hinn 66 ára gamla Butzeck til framboðs. Telur sambandið að rétt sé að kosið verði um embætti forseta IHF. Moustafa hefur ekki fengið mótframboð frá árinu 2009. Þykir sambandið hafa staðnað hin síðari ár undir stjórn Egyptans.
Butzeck, sem býr í Wuppertal í Þýskalandi, hefur lifað og hrærst í kringum handbolta frá táningsaldri. Hann var m.a. varaformaður handknattleikssambands Belarus frá 1992 til 2002 og vann í nefndum á vegum EHF og IHF frá 1993 til 2006.
Í framkvæmdastjórn EHF
Síðar sat Butzeck í framkvæmdastjórn EHF [Handknattleikssamband Evrópu] um fjögurra ára skeið. Hann hefur síðustu ár verið framkvæmdastjóri regnhlífasamtaka margra af fremstu félagsliðum Evrópu.
Á yngri árum var Butzeck leikmaður, þjálfari, dómari og framkvæmdastjóri þýskra handknattleiksliða áður en starf á alþjóðlegum vettvangi tók við, svo fátt eitt sé talið upp.