- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þolinmæðin er að bresta

Per Bertelsen dregur í riðla á HM í Egyptlandi á síðasta hausti. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Per Bertelsen, formaður danska handknattleikssambandsins, DHF, segist vera að missa þolinmæðina við að bíða eftir svörum frá heilbrigðis,- og sóttvarnayfirvöldum vegna Evrópumótsins í handknattleik kvenna sem til stendur að Danir sjái alfarið um að halda. Innan við hálfur mánuður er þangað til flauta á til leiks, föstudaginn 3. desember.


Eftir að Norðmenn hættu við að halda mótið á mánudag sl, í samvinnu við Dani, hefur Bertelsen ásamt hópi fólks unnið hörðum höndum að því að taka við þeim hluta mótsins sem átti að vera á könnu Norðmanna. Bertelsen segir allt vera í höfn nema það sem snýr að heilbrigðis,- og sóttvarnayfirvöldum.

Fer að tilkynna EHF

„Það styttist í að ég kasti handklæðinu inn í hringinn og tilkynni Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, að við getum ekki haldið mótið vegna þess að okkur tókst ekki að fá stjórnmálamennina með okkur í lið,“ segir Bertelsen í samtali við TV2.


Í upphafi vikunnar gerðu Danir sér vonir um að hafa gengið frá öllum atriðum á síðasta fimmtudag. Ekki lánaðist það og eftir gærdaginn hafði ekkert breyst. Nú er þolinmæði Bertelsens og hans fólks að bresta.

Allt annað tilbúið

Fjármögnun á viðbótarkostnaði vegna mótahaldsins er í höfn. Eins hafa allir endar verið hnýttir í Kolding þar sem til stendur að keppt verði í C og D-riðlum mótsins sem áttu að fara fram í Þrándheimi. Samningar við hótel og flutningafyrirtæki á Jótlandi eru tilbúnir og starfsfólk ráðið til ýmissa starfa.


Mánuðum saman hefur legið fyrir að Jyske Bank Boxen í Herning verður hinn vettvangur Evrópumótsins. Þar verður leikið í A og B-riðlum auk millriðla og úrslitaleikja.

Strangar reglur

Bertelsen segist ekki skilja á hverju strandi. Þær reglur um sóttvarnir sem EHF og DHF hafi fyrir löngu samþykkt og gildi í kringum mótið, séu strangari en þær sem almennt gildi í Danmörku. Af hverju það standi nú í sóttvarnayfirvöldum í Danmörku er óskiljanlegt, mati formannsins.

Ef Danir geta ekki haldið mótið verður það fellt niður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -