Þór Akureyri er fallinn úr Olísdeild karla eftir eins ár dvöl. Það lá endanlega fyrir eftir tap Þórs fyrir Gróttu í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í dag, 27:21. Þar með munar sex stigum á Gróttu og Þór þegar liðin eiga tvo leiki eftir hvort. Þórsarar fylgja þar með ÍR-ingum efir niður í Grill 66-deildina.
Grótta byrjaði leikinn af krafti í dag og komst í 7:2 áður en Þórsarar vöknuðu eftir að Halldór Örn Tryggvason þjálfari hafði tekið leikhlé í stöðunni 6:2 eftir um stundarfjórðung. Þórsarar jöfnuðu metin. Staðan var 11:11.
Áfram var jafnt á öllum tölum fram í miðjan síðari hálfleik, 17:17. Þá skildi Gróttumenn Þórsara eftir í rykinu. Stefán Huldar Stefánsson varði allt hvað af tók og Jóhann Reynir Gunnlaugsson átti hvern þrumufleyginn á fætur öðrum í sókninni. Grótta skoraði fimm mörk í röð. Skyndlega var staðan orðin, 22:17, og þar með var björninn unninn fyrir Seltirninga.
Stefán Huldar markvörður átti frábæran leik. Hann mætti til leiks þrátt fyrir meiðsli og átti stórleik þegar mest á reyndi. Jóhann Reynir og Birgir Steinn Jónsson voru einnig afar öflugir í sóknarleiknum. Daníel Örn Griffin meiddist illa þegar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka og ekki útilokað að eitthvað hafi gefið sig í hægra hné.
Mörk Gróttu: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 7, Birgir Steinn Jónsson 5, Andri Þór Helgason 5/2, Daníel Örn Griffin 3, Satoru Gogo 3, Ólafur Brim Stefánsson 2, Gunnar Dan Hlynsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 14, 40%.
Mörk Þórs: Karolis Stropus 6, Aron Hólm 5, Ihor Kopyshynskyi 3/2, Garðar Már Jónsson 2, Gísli Jörgen Gíslason 1, Sigurður Kristófer Skjaldarson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 9, 31% – Arnar Þór Fylkisson 1, 14,3%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.