Tvær af fremstu handknattleikskonum landsins undanfarin 15 ár, landsliðskonurnar og Framararnir, Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir, léku í kvöld sína síðustu leiki á Íslandsmótinu í handknattleik. Báðar eru ákveðnar í að hætta og hefur ákvörðun þeirra legið í loftinu í vetur. Þær staðfestu við handbolta.is í kvöld eftir tap Fram að þær ætli að leggja skóna á hilluna.
Næsta verkefni tekur við
Steinunn er þar að auki gengin 13 vikur með sitt þriðja barn. Hún lék sína síðustu landsleiki í byrjun apríl gegn Ísrael í umspili HM á Ásvöllum.
Þórey Rósa lét staðarnumið með landsliðinu eftir Evrópumótið í Austurríki í byrjun desember.

Alltaf með Fram
Steinunn hefur leikið allan sinn feril með Fram og lengi vel verið fyrirliði og leiðtogi liðsins utan vallar sem innan. Hún hefur þar að auki tekið þátt í 58 landsleikjum og verið með á einu stórmóti, EM 2024. Steinunn hefur marg oft orðið Íslands- og bikarmeistari með Fram. Hún var handknattleikskona ársins hjá HSÍ 2020.
Tvisvar handknattleikskona ársins
Þórey Rósa hefur einnig eingöngu leikið með Fram hér á landi. Fyrst frá 2005 til 2009 og aftur frá 2017 og orðið Íslands- og bikarmeistari nokkrum sinnum. Þórey Rósa var valin handknattleikskona ársins af HSÍ 2017 og 2018.

Varð Evrópumeistari
Þórey Rósa lék í átta ár í Evrópu. Fyrst með E&O Emmen í Hollandi, þá með Oldenburg í Þýskalandi. Þaðan fór Þórey Rósa til Team Tvis Holstebro í Danmörk í tvö ár frá 2011 til 2013 og loks var hún í fjögur ár með Vipers Kristiansand.
Þórey Rósa er önnur tveggja íslenskra handknattleikskvenna sem unnið hefur gullverðlaun í Evrópukeppni félagsliða. Hún og Rut Arnfjörð Jónsdóttir voru í sigurliði Team Tvis Holstebro vorið 2013 þegar liðið vann Evrópukeppni félagsliða, nú Evrópudeildina.
Þriðja markahæst frá upphafi
Þórey Rósa á 145 landsleiki að baki og fjögur stórmót. Hún var þriðja landsliðskonan til þess að skora meira en 400 mörk fyrir landsliðið.