Þórir Hergeirsson var í kvöld kjörinn í þjálfari ársins í Noregi á Idrettsgallaen-hátíðinni sem haldin er í Hamri á vegum Íþróttasambands Noregs.
Þetta er í fyrsta sinn sem Þórir hreppir hnossið þrátt fyrir að hafa verið einstaklega sigursæll sem þjálfari hins stórkostlega norska kvennalandsliðs í nærri hálfan annan áratug.
„Þetta er mikill heiður fyrir mig,“ sagði Þórir m.a. í kvöld þegar hann tók við viðurkenningunni. Á nýliðnu ári varð norska kvennalandsliðið Evrópumeistari undir stjórn Þóris. Um leið varð hann sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar. Hann hefur unnið gullverðlaun á níu stórmótum sem aðalþjálfari kvennalandsliðsins frá 2009.
Þórir er þriðji handknattleiksþjálfarinn á 40 árum sem valinn er þjálfari ársins í Noregi.
Aðrir þjálfarar sem komu til greina að þessu sinni: Espen Berg-Knutsen (skotfimi), Kåre Mol (strandblak), Patrick Oberegger (skíðaskotfimi), Christian Ruud (tennis), Bjarne Rykkje (skautar) og Jan Schmid (norræn tvíkeppni).
Þórir var valinn þjálfari ársins á Íslandi annað árið í röð af Samtökum íþróttafréttamanna á milli jóla og nýárs.