„Ég bý mitt lið undir hörkuleik,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins þegar handbolti.is heyrði stuttlega í honum seinni partinn í gær þar sem hann var í óða önn að búa lið sitt undir viðureignina við Króatíu í milliriðlakeppni EM í handknattleik sem hefst klukkan 17.15 í Sydbank Arena í Kolding. Bæði lið eru ósigruð á mótinu og ljóst að það sem fer með sigur úr býtum á sæti í undanúrslitum víst.
„Króatar hafa komið sjálfum sér og öllum öðrum mjög á óvart á EM. Þeir leika öðruvísi handbolta en flestir aðrir auk þess sem þeir leika með hjartanu, eins og sagt er,“ sagði Þórir ennfremur og undirstrikaði að slík lið væru alltaf erfiður andstæðingur vegna þess að þau leggja aldrei árar í bát þótt móti kunni að blása.
Undirbúningur norska landsliðsins hefur verið hefðbundin, svona eins og hægt er miðað við aðstæður.
Þórir ákvað í morgun að styrkja markvarðastöðuna í liðinu og kallaði inn Silju Solberg, markvörð ungverska stórliðsins Györi, inn í liðið í stað Rikke Granlund. Þar með er ljóst að Þórir mun tefla fram öllum trompum sínum að þessu sinni.
Noregur og Króatía hafa aðeins mæst tvisvar áður á EM. Fyrri leikurinn var á EM 1994 og þá unnu Króatar með eins marks mun, 16:15. Hinn leikurinn var á EM 2016. Norðmenn unnu hann, 34:16. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Sem fyrr segir hefst leikur Noregs og Króatíu klukkan 17.15 og verður m.a. í beinni útsendingu á RÚV2.