Þórir Hergeirsson hættir þjálfun norska kvennalandsliðsins í handknattleik í árslok, að loknu Evrópumeistaramótinu sem haldið verður í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi. Þórir greindi frá ákvörðun sinni á blaðamannafundi fyrir stundu.
Þórir tók við þjálfun norska landsliðsins 2009 af Marit Breivik en hafði áður verið aðstoðarþjálfari hennar frá 2001. Þórir er sigursælasti landsliðsþjálfari í sögunni, hvort sem litið er til kvenna- eða karlalandsliða með 10 gullverðlaun á 19 stórmótum: Ólympíuleikum, heims- og Evrópumótum.
Í síðasta mánuði vann norska landsliðið gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Frakklandi undir stjórn Þóris.
Evrópumótið í árslok verður 20. stórmótið sem Þórir tekur þátt í sem aðalþjálfari kvennalandsliðsins.
Tímabært að láta gott heita
„Mig langar að breyta til, fást við eitthvað annað. Ég hef verið í handknattleik á hæsta þrepi síðan á tíunda áratug síðustu aldar og nú kominn tími til að láta gott heita,“ sagði Þórir m.a. þegar hann greindi frá því að hann myndi ekki gera nýjan samning við norska handknattleikssambandið.
Ekki liggur fyrir hver tekur við starfinu af Þóri.
Þórir Hergeirsson varð sextugur 27. apríl á þessu ári. Undir hans stjórn frá 2009 hefur norska landsliðið unnið 10 sinnum til gullverðlauna á Ólympíuleikum, heims- og Evrópumótum, þrisvar sinnum silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun.
Á 19 stórmótum frá 2009 hefur norska landsliðið unnið 16 sinnum til verðlauna undir stjórn Þóris og aldrei hafnað neðar en í 5. sæti.
Þórir hefur stýrt norska landsliðinu á fimm Ólympíuleikum og komið heim með verðlaun í hvert skipti, þrenn gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun.
Áður en Þórir hóf störf hjá norska handknattleikssambandinu 2001 þjálfaði hann m.a. hjá Elverum, Gjerpen og Nærbø.
Þórir hefur búið í Noregi frá 1986. Hann er kvæntur Kirsten Gaard. Þau eiga tvær dætur og einn son.