Þorsteinn Leó Gunnarsson og liðsfélagar í FC Porto misstigu sig í kvöld á heimavelli í úrslitakeppni portúgölsku 1. deildarinnar í handknattleik. Porto náði aðeins jafntefli við Marítimo Madeira, 27:27, í fjórðu umferð af sex.
Porto er þar með þremur stigum á eftir Sporting sem Orri Freyr Þorkelsson leikur með. Sporting vann meistaratitilinn á síðasta ári og stendur vel að vígi í titilvörninni.
Marítimo Madeira er neðst í keppni liðanna fjögurra og var að vinna sitt fyrsta stig í úrslitakeppninni.
Þorsteinn Leó var í leikmannahópi Porto í leiknum í kvöld en hafði hægt um sig, skoraði ekki mark.
Eftir landsleikjahléið mætir Porto liði Benfica en Sporting leikur við Marítimo Madeira. Í lokaumferðinni 31. maí á Sporting heimaleik við Porto.