Nærri fjögurra mánaða eyðimerkurgöngu kvennaliðs Stjörnunnar milli íþróttahúsa og kappleikja í Olísdeild kvenna í handknattleik lauk í dag, daginn fyrir vetrarsólstöður. Stjarnan vann þá loksins sinn fyrsta leik í deildinni á keppnistímabilinu. Leikmenn Fram máttu bíta í það súra epli að lúta í lægra haldi í heimsókn sinni til Stjörnunnar í Hekluhöllina í síðasta leik ársins í Olísdeildinnni, 34:31. Stjarnan var marki yfir í hálfleik, 16:15.
Stjarnan er áfram neðst en mjakaðist með sigrinum nær Selfossi. Nú skilur aðeins eitt stig liðin að í sjöunda og áttunda sæti. Fram er á hinn bóginn í fjórða sæti með 11 stig eins og Haukar.

Um sannkallaðan baráttusigur var að ræða hjá Stjörnuliðinu í dag. Framarar sóttu að hart að í síðari hálfleik og komust m.a. tveimur mörkum yfir í tvígang þegar kom fram í miðjan síðari hálfleik. Stjörnukonur létu ekki hug falla þrátt fyrir mótlætið heldur komust yfir á ný. Munaði þar ekki síst um reynslukonuna Evu Björk Davíðsdóttur sem fór á kostum í leiknum auk Hrafnhildar Önnu Þorleifsdóttir. Eva Björk skoraði 13 mörk og var með 10 sköpuð færi.
Stjarnan var sterkari á endasprettinum og skoraði fimm af síðustu sjö mörkum viðureignarinnar.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 13/2, Natasja Hammer 6, Inga Maria Roysdottir 5, Vigdís Arna Hjartardóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 16/2, 34%.
Mörk Fram: Harpa María Friðgeirsdóttir 6, Ásdís Guðmundsdóttir 6/3, Valgerður Arnalds 5, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 4, Hulda Dagsdóttir 3, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 2, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Íris Anna Gísladóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 11/2, 28,2% – Arna Sif Jónsdóttir 1, 16,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.


