- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þremur Íslendingaleikjum slegið á frest

Hildigunnur Einarsdóttir er leikmaður Leverkusen. Mynd/Bayer Leverkusen
- Auglýsing -

Kórónuveiran heldur áfram að gera handknattleiksfólki í Þýskalandi gramt í geði. Nú hefur þremur leikjum Íslendingaliða í Þýskalandi sem fram áttu að fara í kvöld verið frestað vegna veirunnar sem fer sem eldur í sinu um Þýskalandi þessi dægrin.

Hildigunnur Einarsdóttir og félagar í Bayer Leverkusen áttu að taka á móti Bietigheim á heimavelli en vegna þess að smit kom upp hjá Bietigheim var leiknum frestað. Þetta átti að vera síðasti leikur liðanna áður en hlé verður gert á keppni í þýsku 1. deildinni frá og með næstu helgi vegna þátttöku þýska landsliðsins á EM sem væntanlega hefst í Danmörku 3. desember.

Framundan er tíu daga frí


Hildigunnur sagði við handbolta.is í morgun að e.t.v. væri um lán í óláni að ræða hjá Leverkusen-liðinu að leiknum hafi verið frestað. Þjálfarinn Michael Biegler hætti á mánudaginn. Eftirmaður hans er ekki kominn í leitirnar. „Nú tekur við tíu daga frí frá æfingum áður en þráðurinn verður tekinn upp aftur,“ sagði Hildigunnur. Næsti leikur Leverkusen er ráðgerður 27. desember gegn FSV Mainz.

Enn frestað hjá Hannesi og Aroni


Ekki er nóg með að smit sé komið upp hjá kvennaliði Bietigheim heldur er það sama upp á teningnum hjá karlaliðinu. Skammt er síðan að Hannes Jón Jónsson og sex leikmenn voru frá æfingum og keppni. Í morgun var greint frá að einn leikmaður hafi smitast og þess vegna hafi orðið að fresta viðureign liðsins við Lübeck Schwartau um óákveðinn tíma. Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson leikur með Bietigheim-liðinu sem aðeins hefur leikið þrjá leiki það sem af er leiktíðar í 2. deildinni.

Ljóst er að Bietigheim-liðið er komið í a.m.k. tíu daga frí frá leikjum. Þar með þéttist enn dagskrá liðsins fram áramótum en til stendur að það leiki á annan tug leikja fram til ársloka. Sennilega þarf að ýta einhverjum þeirra fram á nýtt ár.

Aftur og nýbúnir


Eins upplýsa þýskir fjölmiðlar í morgun að aftur sé komið upp smit í herbúðum EHV Aue. Þar af leiðandi hefur fyrirhuguðum leik við N-Lübbecke, sem átti að fara fram í kvöld, verið slegið á frest. EHV Aue lék um síðustu helgi sinn fyrsta leik í ríflega mánuð eftir að smit greindist innan hópsins. Með EHV Aue leika Íslendingarnir Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson, markvörður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -