Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sjö mörk fyrir norska meistaraliðið Kolstad þegar það kjöldró leikmenn Pick Szeged frá Ungverjalandi í Þrándheimi, 37:24. Kolstad hafði mikla yfirburði í leiknum og var þegar komið með 13 marka forskot þegar fyrri hálfleik var lokið. Þetta var annar sigur Sigvalda og samherja í fjórum leikjum í A-riðli Meistaradeildar en liðið er með í keppninni í fyrsta sinn.
Norski landsliðsmarkvörðurinn Thorbjørn Bergerud átti stórleik í marki Kolstad og varði 19 skot, 45% hlutfallsmarkvarsla. Simon Lyse og Magnus Rød skoruðu átta mörk fyrir Kolstad og var voru markahæstir.
Richárd Bodó, Matej Gaber og Imanol Gariandia skoruðu fimm mörk hver fyrir Pick Szeged.
Skiptur hlutur í Zagreb
Aalborg krækti í annað stigið í heimsókn tl RK Zagreb, 30:30, en liðin eru einnig í A-riðli. Miloš Kos jafnaði metin fyrir RK Zagreb á síðustu sekúndu.
Mads Hangaard og Mikkel Hansen skoruðu sex mörk hvor fyrir Álaborgarliðið. Niklas Landin náði sér ekki á strik í markinu og aldrei þessu vant fékk Fabian Norsten tækifæri til þess að spreyta sig en nýtti ekki tækifærið vel. Zvonmir Srna skoraði sjö mörk fyrir Zagrebliðið sem náð hefur í þrjú stig í fjórum leikjum sem er harla gott á þeim bænum í samanburði við nokkur síðustu ár.
Þrír leikir eru nýlega byrjaðir í Meistaradeildinni. Þar á meðal viðureign Wisla Plock og SC Magdeburg. Selfyssingarnir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon eru í leikmannhópi Magdeburg. Hægt er að fylgjast með leikjum endurgjaldslaust á ehftv.com.