Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði fyrir Svíum með 13 marka mun í fyrsta leik sínum í undankeppni EM, í 6. riðli í Stiga Sports Arena í Eskilstuna í dag, 30:17, eftir að hafa verið níu mörkum undir í hálfleik, 14:5. Næsti leikur íslenska liðsins í keppninni verður á sunnudaginn gegn Serbum í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.
Fyrri hálfleikur var slakur af hálfu íslenska liðsins, ekki síst í sókninni. Það varð þess valdandi að Svíar keyrðu yfir íslenska liðið með hraðaupphlaupum. Sóknarleikurinn var óöruggur, mikið um sóknarmistök og sóknarbrot s.s. skref og tvígrip. Munurinn var því fljótt talsverður.
Talsverður munur er á líkamlegum burðum á milli liðanna. Hann varð skýr að þessu sinni, sérstaklega var það greinilegt í sóknarleiknum.
Eftir að hafa verið níu mörkum undir í hálfleik var eina markmiðið að bæta aðeins stöðuna í síðari hálfleik. Segja má að það hafi tekist. Ísland skoraði 12 mörk.
Leikurinn sýnir hinsvegar svart á hvítu hversu mikill munur er á bestu liðum Evrópu um þessar mundir og á því íslenska. Það er áframhaldandi verk að vinna í þeim efnum. Skref hafa verið stigin, nú þarf að halda áfram, leggja ekki árar í bát heldur þvert á móti herða róðurinn.
Lovísa Thompson fékk högg á kinn eftir 10 mínútur í síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu í leiknum.
Mörk Íslands: Thea Imani Sturludóttir 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Lovísa Thompson 2, Tinna Sól Björgvinsdóttir 2, Ragnheiður Júlíusdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1, Sandra Erlingsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 7, Saga Sif Gísladóttir 2.
Mörk Svíþjóðar: Jamina Roberts 6, Nathalie Hagman 4, Elin Hansson 4, Carin Strömberg 3, Linn Blohm 3, Melissa Petrén 3, Nina Dano 3, Mathilda Lundström 1, Anna Lagerquist 1, Emma Lindqvist 1. Clara Lerby 1.
Fylgst var með leiknum í textalýsingu beint úr keppnishöllinni.