- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þriðji sigurinn hjá Þóri á æfingamótinu

Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik kvenna. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Heims- og Evrópumeistarar Noregs í handknattleik kvenna unnu sannfærandi sigur á pólska landsliðinu, 27:25, í síðasta leik liðanna á alþjóðlega fjögurra liða mótinu sem farið hefur fram í Hamar og Lillehammer í Noregi frá því á fimmtudaginn. Norska landsliðið vann allar þrjár viðureignir sínar á mótinu og hafnar í efsta sæti.


Pólland hreppir annað sæti mótsins eftir sigur á Íslandi og Angóla en tvær síðarnefndu þjóðirnar mætast síðar í dag í síðasta leik mótsins. Flautað verður til leiks klukkan 16.15.

Noregur var fimm mörkum yfir, 15:10, að loknum fyrri hálfleik. Eins og í gær gegn íslenska landsliðinu þá dreifði Þórir Hergeirsson þjálfari norska landsliðsins álaginu á milli leikmanna.

Camilla Herrem var markahæst í norska landsliðinu í dag með fimm mörk. Nora Mørk, Thale Rushfeldt Deila, Ingvild Kristiansen Bakkerud og Vilde Mortensen Ingstad skoruðu fjögur mörk hver. Emilia Galinska skoraði flest mörk pólsku leikmannanna, sex, Karolina Kochaniak skoraði fimm mörk.

Mótið er til undirbúnings fyrir landsliðin áður en alvaran tekur við á heimsmeistaramótinu á miðvikudaginn. Noregur mætir Grænlandi í fyrstu umferð í Stavangri. Daginn eftir leika Pólverjar við Íran í Herning á Jótlandi en HM er haldið í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð. Upphafsleikur íslenska landsliðsins verður við Slóvena í Stavangri á fimmtudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -