- Auglýsing -
Elverum vann úrslitakeppnina í norska handknattleiknum í dag með því að leggja Arendal með sex marka mun, 34:28, í fjórða úrslitaleik liðanna sem fram fór í Sør Amfi, heimavelli í Arendal. Elverum hefur þar með unnið úrslitakeppnina (sluttspillet) níu ár í röð.
Um leið fagna leikmenn Elverum magnaðri þrennu í norska karlahandboltanum því auk þess að vinna úrslitakeppnina stóð liðið uppi sem sigurvegari í bikarkeppninni og í deildarkeppninni en síðastnefnda keppnin færði liðinu norska meistaratitilinn. Þetta er í fyrsta sinn í 11 ár sem lið vinnur þrefalt í norska karlahandboltanum. Haslum vann þrennuna vorið 2011.
Misskilnings gætir víða þess efnis að liðið sem vinnur úrslitakeppnina í Noregi verði landsmeistari. Svo er ekki heldur það sem vinnur deildarkeppnina.
Aron Dagur Pálsson og Orri Freyr Þorkelsson skoruðu ekki mark í leiknum í Sør Amfi í dag. Leikurinn var um leið sá síðasti hjá Aroni Degi fyrir Elverum. Hann kom til liðsins snemma árs sem íhlaupamaður þegar margir leikmenn Elverum voru frá keppni vegna meiðsla. Aron Dagur var áður í Svíþjóð. Óvíst er hvað tekur við hjá Aroni Degi en hann hefur verið orðaður við félagslið heima á Íslandi.
Orri Freyr kom til liðs við Elverum fyrir ári frá Haukum og er samingsbundinn Elverum til eins árs í viðbót.
- Auglýsing -