- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þriðju verðlaun Dana í röð á stórmóti – í fyrsta sinn í aldarfjórðung

Leikmenn danska landsliðsins fagna í leiknum við Svía í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Annað heimsmeistaramót kvenna í röð taka Danir við bronsverðlaunum þegar upp verður staðið. Danska landsliðið vann það sænska, 28:27, í leiknum um þriðja sæti mótsins í Jyske Bank Boxen í Herning í dag. Danska landsliðið hefur þar með unnið til verðlauna á þremur stórmótum í handknattleik kvenna í röð, nokkuð sem ekki hefur átt sér stað í aldarfjórðung. Auk bronsverðlauna á tvennum síðustu heimsmeistaramótum hrepptu Dani silfurverðlaun á Evrópumótinu fyrir ári.

Svíar verða áfram að bíða eftir verðlaunum á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik.


Leikurinn varð æsilega spennandi á síðustu tíu mínútunum en lengi vel var danska landsliðið með afar góð tök á leiknum. Svíar jöfnuðu metin, 25:25, og áttu þess kost að komast yfir. Af því varð ekki og Danir komust yfir, 27:25. Bilið tókst Svíum aldrei að brúa aftur. Mie Højlund skoraði 28. mark Dana 30 sekúndum fyrir leikslok. Sænska liðinu tókst að skora 27. markið 10 sekúndum áður en leiktíminn var úti.

Jesper Jensen hefur stýrt danska landsliðinu á fjórum síðustu stórmótum og þrisvar sinnum unnið til verðlauna. Mynd/EPA

Í hálfleik var forskot Dana þrjú mörk, 18:15, eftir að Tyra Axnér minnkaði muninn á síðustu sekúndu. Svía byrjuðu leikinn illa og lentu undir, 5:1, snemma. Sóknarleikur sænska liðsins var ekki góður og í raun má segja að hann hafi aldrei orðið almennilegur þrátt fyrir 27 skoruð mörk.

Eins og gegn Noregi í undanúrslitum réðu Danir lögum og lofum lengi vel. Þeir töpuðu aðeins þræðinum þegar á leið síðari hálfleik og sænsku varnarmönnunum óx ásmegin.

Mörk Danmerkur: Anne Mette Hansen 5, Kristina Jørgensen 5, Mie Enggrob Højlund 5, Trine Østergaard Jensen 3, Rikke Iversen 2, Julie Scaglione 2, Kaja Kamp Nielsen 2, Louise Katharina Burgaard 2, Line Haugsted 1, Emma Cecilie Uhrskov Friis 1.
Varin skot: Sandra Toft 7, 28% – Althea Reinhardt 1, 13%.

Mörk Svíþjóðar: Olivia Mellegard 7, Linn Blohm 7, Tyra Axnér 4, Jenny Carlson 2, Jamina Roberts 2, Nina Dano 1, Mathilda Lundström 1, Emma Lindqvist 1, Sofia Hvenfelt 1, Johanna Bundsen 1.
Varin skot: Johanna Bundsen 5, 19% – Evelina Eriksson 1, 13%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -