Handknattleiksdeild FH hefur ráðið þá Guðmund Pedersen, Magnús Sigmundsson og Jörgen Frey Ólafsson sem þjálfara meistaraflokks kvenna næstu tvö árin. Þetta kemur fram í tilkynningu deildarinnar í kvöld.
Jörgen Freyr mun jafnframt vera aðalþjálfari 3. flokks kvenna næstu tvö árin.
„Við erum virkilega ánægð með þessa ráðningu, feykilega öflugt teymi sem mun vinna vel saman að uppbyggingu og framtíð kvennahandboltans í FH,” segir Ásgeir Jónsson formaður Handknattleikdeildar FH í tilkynningunni.
„Við erum með mikið af efnilegum stelpum hjá félaginu sem og öflugum reyndari leikmönnum sem munu fá góða og metnaðarfulla þjálfun sem og aðbúnað eins og best verður á kosið. Við ætlum að leggja mikið á okkur til að kvennastarfið blómstri áfram, metnaður okkar er mikill og það verður engu til sparað,” er ennfremur haft eftir Ásgeiri í tilkynningunni.