Íslensku handknattleiksþjálfararnir þrír sem stýra hver sínu landsliðinu í forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í Doha í Katar þessa daga stýrðu liðum sínum til sigurs í leikjum dagsins.
Dagur Sigurðsson og liðsmenn japanska landsliðsins luku leik í B-riðli með stórsigur á Kasakstan, 44:19. Japanska liðið vann allar fjórar viðureignir sínar í riðlinum og tekur sæti í undanúrslitum sem hefjast síðar í vikunni. Fimm lið eru í B-riðli en sex lið í A-riðli.
Aron Kristjánsson er með landslið Barein í B-riðli. Bareinar unnu Kúveita í dag, 34:26. Bareinliðið var mun öflugra í síðari hálfleik. Framundan er úrslitaleikur hjá Barein við Íran á þriðjudaginn um annað sæti í riðlinum sem veitir rétt til þess að leika í undanúrslitum.
Naumur sigur hjá Erlingi
Í A-riðli vann landslið Sádi Arabíu, undir stjórn Erlings Richardssonar, nauman sigur á Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 22:21, eftir nokkurn darraðardans. Sádar voru þremur mörkum undir í hálfleik, 11:8.
Landslið Katar er efst og ósigrað í A-riðli. Sádar og Suður Kórebúar eru jafnir með sex stig í öðru sæti fyrir lokaumferðina á þriðjudag. Þá mæta Sádar liði Katar og Suður Kórea leikur við Kína.