- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þú getur tekið meirapróf eins og „allir“ gera

Fjögur ár eru í dag síðan handbolti.is hóf göngu sína. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Hvað gerir nærri hálf sextugur kall þegar honum er sagt upp störfum? Sjálfsagt hvað sem er, eða hvað? Reynsla mín var alltént sú að ekki var hlaupið í hvað sem var. Eftirspurnin var af skornum skammti, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Starfsumsóknum var ýmist ekki svarað eða að maður var nánast gerður að fífli í starfsviðtölum. Erfitt var að takast á við vonbrigðin sem starfsuppsögn fylgir, hálfu verra var að takast á við höfnun sem fylgdi því að fá hvergi vinnu.

Nei, takk

Þú getur tekið meirapróf eins og „allir“ gera sem missa vinnuna á þínum aldri, sögðu ýmsir við mig til uppörvunar. Mér hefur þótt nóg að koma mér og fjölskyldunni á milli staða í bíl, svo ég færi ekki að taka ábyrgð á að aka með tugi fólks um landið þvert og endilangt. Ellegar þá að keyra leigubíl eins og ástandið er í þeim bransa.

Er það ekki málið?

Er ekki bara vefur um handbolta málið fyrir þig, spurðu nokkrir? Ég veit það ekki, svaraði ég. Hugmyndin var e.t.v. ekki galin en eins góð og mörgum þótti hún þá hafði engin svarið við því hvort grundvöllur væri fyrir hendi.

Hrollkaldur raunveruleikinn. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hvernig átti maður sem verslanir treystu sér ekki til að ráða í vinnu við að raða vörum upp í hillur og þjónusta viðskiptavini af kurteisi, að hafa svar við því hvort hægt væri að halda úti vef um handbolta? Ellegar að reka lítið fyrirtæki svo bærilegur sómi væri af.

„Alveg kjörin fyrir þig.“

Eftir talsverðar bollaleggingar við konuna mína, en einnig við sjálfan mig, vorið og fyrri hluta sumars 2020, var ákveðið að taka stökkið með þennan handboltavef sem mörgum þótti vera svo góð hugmynd og „alveg kjörin fyrir þig.“ Úr varð handbolti.is sem er fjögurra ára í dag.

Ekki var þá til setunnar boðið. Útgáfudagur, fimmtudagur 3. september 2020, nánast ákveðinn áður en nokkuð annað var í hendi. Eftir á að hyggja var það ein besta ákvörðunin sem var tekin. Sennilega hefði verið enn torsóttara að hefja útgáfuna síðar um haustið þegar allt var komið í lás vegna heimsfaraldurs.

Hvert skal halda? Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Blautur á bak við eyrun

Blautur á bak við eyrun þreifaði ég mig áfram þá leið að stofna fyrirtæki, verða mér út um lén og vefsíðu. Lénið handbolti.is lá ekki á lausu, hvað þá annað.

Ljónheppinn

Ég var svo ljónheppinn að fá Daníel Rúnarsson til að búa til vefinn og stýra mér í mörgum þáttum inn á rétta sporið. Ég vissi ekkert. Hafði aðeins skrifað fréttir inn á fréttvef. Þar með var þekking mín upptalin í þessum efnum.

Við tóku annasamar vikur sumarið 2020 þar sem unnið var skipulega og hugað að ótrúlega mörgu. Enn eru til í skúffum minnispunktar og rissblöð með ýmsum hugmyndum.

Þótt útkoman hafi verið einföld, vefsíðan sem þú hefur fyrir augum kæri lesandi, þá var svo sannarlega margt sem þurfti að hugsa fyrir og hnýta enda á.

Tveggja metra reglan. Reynt að ræða við Elliða Snæ Viðarsson landsliðsmann áður en skellt var í lás vegna veikinda á EM 2022 í Búdapest. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Það tókst!

Með góðri hjálp og mikilli vinnu tókst að hnýta nógu marga enda svo að 3. september 2020 klukkan 7 að morgni var handbolti.is opnaður með nokkrum tugum frétta, vissulega misjafnlega merkilegum, en nóg til að nokkrar greinar voru í hverjum fréttaflokki.

Mátti ekki seinna vera

Nokkrum dögum síðar skall enn ein covid-bylgjan á og ekki var leikinn handbolti hér á landi vikum og mánuðum saman. Lítill áhugi auglýsenda varð ennþá minni en áður. Þá kom sér vel að sparifé sem lagt var í reksturinn var bærilegt og að samningur við Olís um kaup á auglýsingum hélt þótt kappleikir væru fáir og með höppum og glöppum. Við tóku undarlegir tímar. Víða var skrapað saman fréttum til að halda vefnum bærilega ferskum.

Karlalandslið Íslands á HM 2021 í Egyptalandi. Mynd/HSÍ

Á hótelherbergi í Kaíró

Í upphafi ársins 2021 var handbolti.is eini einkarekni fjölmiðill landsins sem lagði út í erfiða og rándýra ferð á heimsmeistaramót karla í handknattleik í Egyptalandi. Mót sem fór fram fyrir luktum dyrum og neðanritaður varði meiri tíma lokaður inni á hótelherbergi í Kaíró en góðu hófi gegndi. Þegar upp var staðið veitti  ferðin handbolta.is vængi.

Fjögurra ára

Á fjögurra ára afmælinu í dag tórir handbolti.is enn. Eitt og annað hefur verið gert og reynt. Sumt heppnast, annað ekki. Ýmislegt hefur ekki enn komist í verk.

Handbolti á sumrin?

Handbolti.is vex og dafnar þegar litið er til áhuga og lestrar sem sannast m.a. á að nýliðinn ágústmánuður er sá næst besti í aðsókn á árinu. Ágúst? Er nokkur að hugsa um handbolta á sumrin?

Nærri 15 þúsund

Nærri 15 þúsund greinar hafa verið skrifaðar og þær lesnar meira 10 milljón sinnum. Vissulega ekki mikið þegar litið er til framleiðslu og lestrar stóru miðlanna. Hvern einasta dag frá upphafi hafa birst nýjar fréttir á síðunni, jafnvel á helgidögum.

Kjartan Vídó Ólafsson markaðsstjóri HSÍ leikur listir sínar með bolta á æfingu landsliðsins í Þýskalandi í janúar. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Ekki dagur fallið niður

Í ljósi reynslunnar sem ég fékk þá níu mánuði sem ég var atvinnulaus er ég býsna stoltur yfir að hafa haldið út fram til þessa svo gott sem í sjálfboðavinnu og ekki misst dag úr vinnu. Meira að segja covidveikindi og 15 daga einangrun og sóttkví í tveimur löndum komu ekki í veg fyrir að daglega birtust fréttir eins og ekkert hefði ískorist.

Þakklæti

Umfram allt er ég þakklátur konunni minni fyrir þolinmæði og ótrúlegt umburðlyndi. Einnig öllum þeim sem hafa lagt mér lið á margvíslegan hátt og jafnvel verið tilbúnir að gefa vinnu sína til að leggja handbolta.is liðsinni. Síðast en ekki síst þakka ég lesendum handbolta.is. Takk fyrir samfylgdina.

Marvaðinn troðinn

Áfram verður marvaðinn troðinn fimmta árið í röð í leit að svari við spurningunni hvort grundvöllur sé fyrir rekstri fréttamiðlis um handbolta.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -