- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þungt högg fyrir okkur sem getur haft áhrif til lengri tíma

Ósennilegt er að keppni á Íslandsmótinu hefjist aftur fyrr en nokkuð verður liðið á janúar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það er mjög mikil vonbrigði að ekki skuli hafa verið heimilað að hefja æfingar frá og með morgundeginum. Ekki síst þegar horft er til ungmenna sem fá hvorki að mæta í skóla né í íþróttir og sitja heima alla daga og hafa gert svo mánuðum skiptir í vor, haust og í vetur,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands við handbolta.is spurður um viðbrögð hans og sambandsins við þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að framlengja núverandi sóttvarnaráðstafanir til 9. desember.


„Einnig er það þungt högg fyrir okkur að afreksstarfið hafi enn einu sinni setið eftir. Því miður þá hefur alls ekki verið horft til þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fram í þeim efnum,“ segir Róbert Geir en Handknattleikssambandi og Körfuknattleikssambandið lögðu í sameiningu fram ítarlegar tillögur í haust um hvernig haga skyldi æfingum og keppni meðan veirufaraldurinn stæði yfir.

Fáum við ekki að æfa í desember er alveg ljóst að keppni getur ekki hafist fyrr en talsvert verður liðið á janúar.

„Það gekk vel þann stutta tíma sem eftir þeim var farið áður en öllu var skellt í lás í haust,“ segir Róbert og bætir við að það sé með öllu óskiljanlegt að enn einu sinni séu afreksíþróttir flokkaðar á sama hátt og almenningsíþróttir.

Ramminn okkar minnkar

„Að sjónarmið íþróttahreyfingarinnar hafa alls ekki komist í gegn í þeim efnum eru enn ein vonbrigðin. Nú verðum við bara að bíða, vona og sjá hvað gerist að viku liðinni. Það er jafnframt skýrt að tímaramminn okkar er alltaf að minnka. Fáum við ekki að æfa í desember er alveg ljóst að keppni getur ekki hafist fyrr en talsvert verður liðið á janúar. Þá verður eitthvað undan að láta svo við getum lokið Íslandsmótinu innan skaplegs tíma.“

Það er ljóst að brottfall úr íþróttum í heild mun aukast gríðarlega sem verður alvarlegt fyrir þjóðfélagið allt til lengri tíma litið

Róbert Geir segir það hafa verið salt í sárin að sjá að í minnisblaði sóttvarnalæknis frá því fyrr í síðustu viku hafi hann gert ráð fyrir að æfingar íþróttafélaga yrðu heimiliðar. Það minnisblað dró sóttvarnalæknir til baka þegar smitum fjölgaði lítillega undir lok síðustu viku. Róbert Geir var bjartsýnn í samtali við handbolta.is á föstudaginn um að æfingar yrðu heimilaðar í nýrri reglugerð ráðherra frá og með deginum á morgun.

Hefur orðið harkalega úti

Í dag hafa æfingar fullorðinna og ungmenna legið niðri í liðlega tvo mánuði. Því til viðbótar voru ekki heimilar æfingar mánuðum saman í vor og fram á sumar. Róbert Geir segir að í ljósi þess hvað skipulagt íþróttastarf hafi orðið harkalega fyrir barðinu á ákvörðunum yfirvalda sé full ástæða til að hafa þungar áhyggjur af stöðunni um þessar mundir og hvaða áhrif það hafi til lengri tíma litið.

með öllu óskiljanlegt að enn einu sinni séu afreksíþróttir flokkaðar á sama hátt og almenningsíþróttir

„Það er ljóst að brottfall úr íþróttum í heild mun aukast gríðarlega sem verður alvarlegt fyrir þjóðfélagið allt til lengri tíma litið. Það getur skapað mörg vandamál fyrir allt samfélagið sem getur verið erfitt að greiða úr. Þess vegna verður það gríðarleg áskorun fyrir okkur innan íþróttahreyfingarinnar í heild að ná utan um börn og ungmenni þegar þau geta loksins farið að æfa og keppa á nýjan leik,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands þungur á brún í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -