„Þetta verður alvöru leikur, það segir sig sjálft. Króatar unnu silfrið á HM í fyrra,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla um viðureign dagsins á EM, leikinn við Króata sem hefst klukkan 14.30 í Malmö Arena.
„Við höfum undirbúið okkur vel fyrir viðureignina. Allir gera sér grein fyrir því að við þurfum okkar allra bestu frammistöðu til þess að vinna leikinn í dag. Fram til þessa hefur margt mjög jákvætt verið í okkar leik á mótinu og vonandi náum við að framkvæma eitthvað af þeim í viðureigninni við Króata. Þá held ég að allt sé hægt,“ segir Snorri Steinn.
Staðan
Íslenska landsliðið hefur keppni í milliriðli með 2 stig eftir sigur á Ungverjum. Króatar eru án stiga eins og Ungverjar og Sviss. Ásamt íslenska landsliðnu hafa Slóvenar og Svíar tvö stig hvorir við upphaf milliriðlakeppninnar. Tvö efstu liðin fara áfram í undanúrslit og liðið í þriðja sæti leikur um 5. sætið og HM-farseðil við liðið í þriðja sæti í hinum milliriðlinum föstudaginn 30. janúar.
Erum með lausnir
Spurður segist Snorri nú eins og í fyrra hafa lausnir við 5/1 vörn Króata sem sló íslenska landsliðið út af laginu í viðreigninni í Zagreb Arena fyrir ári.
„Við töldum okkur líka vera með lausnir í fyrra en því miður leystum við ekki dæmið. Eitt er að vera með lausnir sem við gátum og annað mál getur síðan verið að koma með lausnina í hita leiksins,“ segir Snorri Steinn sem á von á að Króatar leiki bæði 5/1 vörn og 6/0.
Sterkir og kröftugir
„Þeir geta leikið bæði varnarafbrigði mjög vel. Einnig eru leikmenn líkamlega sterkir og kröftugir. Það eru alltaf læti í kringum þá. Króatar eru drulluerfiðir. Við þurfum algjöran toppleik til þess að vinna,“ segir Snorri Steinn.
Klárir frá fyrstu mínútu
Króatar hafa ekki sýnt allar sínar bestu hliðar á EM til þessa. Það mun ekkert hafa að segja í dag. Þeir, eins og leikmenn íslenska landsliðsins, munu leggja sig alla fram. „Við verðum að vera klárir í slaginn frá fyrstu mínútu. Það verður hart tekist á. Ef eitthvað verður þá á ég von á harðari leik en gegn Ungverjum á þriðjudaginn. Allir sáu hvernig sá leikur var,“ sagði Snorri Steinn sem vill meiri skarpleika í sóknina.
Einum gír ofar
„Þegar komið er svona langt inn í mótið verður að fara einum gír ofar og leika enn betur. Ég hef trú á að við getum það,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í viðtali við handbolta.is í Malmö.
Úrslit fyrri leikja við Króata á EM:
2024: Ísland - Króatía 35:30.
2022: Ísland - Króatía 22:23.
2018: Ísland - Króatía 22:29.
2016: Ísland - Króatía 28:37.
2012: Ísland - Króatía 29:31.
2010: Ísland - Króatía 26:26.
2006: Ísland - Króatía 28:29.

