- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þvílíkir stríðskarakterar og barátta

- Auglýsing -

„Mér hefur oft liðið betur, ég skal viðkenna það. Á sama tíma er ég hinsvegar gríðarlega stoltur af stelpunum, þvílíkir stríðskarakterar og barátta. Ég á varla orð til þess að lýsa því,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is eftir að íslenska landsliðið tapaði fyrir Evrópumeisturum Ungverja í framlengdum leik í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Jane Sandanski Arena í Skopje í kvöld, 34:31.

„Við vorum að leika við Evrópumeistarana í jöfnum úrslitaleik. Verðum fyrir áföllum að missa tvo sterka leikmenn út snemma leiks, erum undir en komum til baka. Þegar upp er staðið þá ræðst leikurinn á einu atriði til eða frá,“ sagði Ágúst Þór sem þjálfar liðið ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.

Stilltum af vörnina

Íslenska liðið var sjö mörkum undir í hálfleik, 19:12, en tókst að jafna metin í síðari hálfleik en ungverska liðið skoraði aðeins tíu mörk á síðari 30 mínútum venjulegs leiktíma. Ágúst Þór sagði varnarleikinn hafa batnað mikið á milli hálfleika.

„Þær voru að skora of auðveld mörk á okkur í fyrri hálfleik. Okkur tókst að stilla okkur betur af í 5/1 vörninni og vinna boltann hvað eftir annað. Við skoruðu mörg mörk úr hraðaupphlaupum í síðari hálfleik meðan við vorum aðeins með eitt mark úr hraðaupphlaupi í fyrri hálfleik. Til viðbótar við varnarleikinn þá náði Ethel Gyða sér vel á strik í markinu,“ sagði Ágúst Þór og bætti við að frammistaða liðsins hafi verið hreint stórkostleg.

Þessar stelpur eru einstakar

„Þessar stelpur eru einstakar. Innan liðsins eru mikil gæði enda nokkrar úr A-landsliðinu. Svo eru stelpurnar mjög faglegar í allri sinni nálgun. Auk þess sem liðsheildin er feikilega öflug. Í þessum leik tóku nokkrar þátt sem leikið hafa minna í mótinu. Þær komu inn og skiluðu allar sínu hlutverki alveg frábærlega á móti jafn sterku liði og Ungverjar eru. Það er erfitt að biðja um meira en það sem stelpurnar gerðu að þessu sinni og það vantaði lítið upp á að það dygði til sigurs,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í Skopje í kvöld.

Lengra viðtal er við Ágúst Þór í myndskeiði efst í fréttinni.

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á morgun við Svíþjóð í krossspili um sæti fimm til átta. Leikurinn hefst klukkan 16 og verður handbolti.is að vanda með gætur á leiknum.

HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana

Yngri landsliðin.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -