- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þykir vænt um að vera hluti af þessum hóp

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Katrín Vilhjálmsdóttir og Martha Hermannsdóttir, Íslandsmeistarar með KA/Þór 2021. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Tímabilið var stórkostlegt hjá okkur og betra en flestir áttu von á. Að verða meistari í lokin var hreint magnað,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handknattleikskona hjá Íslandsmeisturum KA/Þórs, í samtali við handbolta.is. Koma Rutar til félagsins er að margra mati einn stærsti þátturinn í velgengni KA/Þórsliðsins sem varð Íslandsmeistari, deildarmeistari í Olísdeildinni og meistari meistaranna á keppnistímabilinu, allt í fyrsta sinn.

„Við sýndum mesta stöðugleika og unnum öll sigurlaunin sem voru í boði. Það er mjög mikið afrek,“ segir Rut Arnfjörð sem var ein af 13 leikmönnum KA/Þórsliðsins sem varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn á sunnudaginn. „Það er stórt fyrir mig að verða Íslandsmeistari og enn skemmtilegra að ná því á fyrsta ári heima eftir 12 ára veru í Danmörku,“ sagði Rut sem varð danskur meistari 2019 og 2020 með Team Esbjerg en flutti til Íslands á síðasta sumri ásamt manni sínum Ólafi Gústafssyni og ungum syni.

Ekki tilviljun

Rut sagði árangurinn hjá KA/Þór ekki vera tilviljun. Mikill metnaður ríki á meðal leikmanna og þjálfara. Hún hafi fundið það strax þegar hún kom norður að mikill vilji ríkti til þess að ná árangri. „Það hefur verið gaman að sjá hvað stelpurnar urðu öflugri eftir því sem á keppnistímabilið leið. Mér þykir vænt um að vera hluti af þessum hóp. Stelpurnar hafa ríkan metnað og langar að vera betri. Það hefur verið gaman verða vitni að þeim framförum sem þær hafa tekið. Þær geta orðið ennþá betri.“

Mjög góð liðsheild

Samstaðan innan KA/Þórsliðsins hefur verið einstaklega góð og hafa leikmenn sérstaklega haft orð á því, ekki bara eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn heldur meira og minna allt keppnistímabilið. „Liðsheildin er mjög góð. Ellefu leikmenn af fjórtán eru frá Akureyri. Þær þekkjast vel sem hefur styrkt liðsheildina. Mjög vel hefur verið tekið á móti mér og fjölskyldu minni á Akureyri. Þar af leiðandi var ég fljót að komast í hópinn og verða hluti af liðinu. Andri Snær [Stefánsson] þjálfari er ótrúlega flottur karakter. Þannig að allt hefur einhvernveginn fallið mjög vel saman,“ sagði Rut.

Jákvætt og sætt

Rut segist þykja vænt um að það sem sagt hefur verið að koma hennar hafi fært liðið og leikmennina upp á hærra plan. Hún hafi smitað metnaði og vilja út til samherjanna. „Það er jákvætt og sætt að vita til þess að maður hafi haft jákvæð áhrif á samherjana, nokkuð sem ég vil gera. Vonandi verður árangur okkar á keppnistímabilinu hvatning til frekari dáða fyrir aðrar íslenskar handboltakonur hjá öðrum liðum þegar þær sjá hvað við höfum gert.“

Gáfu tóninn í upphafi

KA/Þórsliðið hóf keppnistímabilið á því að vinna meistarakeppni HSÍ, leik á milli deildarmeistara og bikarmeistara síðasta tímabil. Þar sem Fram vann báða titla á síðustu leiktíð kom það í hlut KA/Þórs að mæta Fram í leiknum í meistarakeppninni vegna þess að í liðið hafði leikið við Fram í úrslitum Coca Cola-bikarkeppninnar í mars í fyrra. KA/Þór vann leikinn í meistarakeppninni. Fáa grunaði að sigurinn markaði upphafið að þeim árangri sem liðið hefur náð núna.

Þurftu að hafa fyrir sigrunum

„Við þurftum að hafa fyrir hverjum einasta sigri á keppnistímabilinu. Við unnum engan leik mjög stórt og náðum mörgum eftir mikla baráttu fram á síðustu mínútu. Tímabilið verið jafnt og gott hjá okkur. Við höfum sýnt ákveðinn stöðugleika.“

Hræðist ekki auknar kröfur

Rut segir ljóst að meiri pressa verði á KA/Þórs liðinu á næsta keppnistímabili eftir það sem á undan er gengið. „Kosturinn er hinsvegar sá að stelpurnar í liðinu eiga mikið inni, þær geta bætt sig mikið auk þess þá bætist Unnur [Ómarsdóttir] í hópinn hjá okkur. Vonandi verðum við ennþá betri.


Aukin pressa fylgir velgengni hjá því verður ekki komist. Við verðum að mæta henni eins og öðru. Það er ekkert að óttast,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Íslandsmeistari í KA/Þór og landsliðskona í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -