Rhein Neckar Löwen, Melsungen, GWD Minden og Kiel bættust í kvöld í hóp þeirra liða sem komin eru í átta liða úrslit í þýsku bikarkeppninni í handknattleik. Í gærkvöld unnu Lemgo, Gummersbach og Erlangen viðureignir sínar í 16-liða úrslitum. Þar með stendur aðeins einn leikur eftir í 16-liða úrslitum, á milli ASV Hamm-Westfalen og SC Magdeburg sem fram fer 21. desember.
Íslendingar voru í eldlínunni með nokkrum liðum í kvöld.
- Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen er komnir í átta liða úrslit í þýsku bikarkeppninni í handknattleik eftir fimm marka sigur á Stuttgart á heimavelli í kvöld, 35:30. Ýmir Örn skoraði ekki mark en var tvisvar vísað af leikvelli enda harður í horn að taka.
- Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk fyrir Stuttgart og Andri Már Rúnarsson skoraði eitt mark. Andy Schmid var óstöðvandi og skoraði 10 mörk fyrir RN Löwen.
- Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen í sex marka sigri á Bergischer HC, 28:22, á heimavelli. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú af mörkum Melsungen en Alexander Petersson skoraði ekki mark. Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Bergischer.
- Janus Daði Smárason skoraði eitt mark og átt tvær stoðsendingar þegar Göppingen tapaði fyrir GWD Minden, 31:28, í Minden.
- THW Kiel vann Hannover Burgdorf, 30:28, eftir framlengdan leik á heimavelli Burgdorf. Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.