Toppbarátta þýsku 1. deildarinnar heldur áfram að krafti. Efstu lið deildarinnar, Flensburg, Magdeburg og THW Kiel unnu öll leiki sína í dag. Aðeins munar tveimur stigum á Flensburg og THW Kiel en bæði lið unnu svokölluð Íslendingalið í dag.
Evrópumeistarar Magdeburg eru á milli norðurrisanna tveggja með 19 stign og eiga leik inni eftir sigur á Rhein-Neckar Löwen á heimavelli 28:24.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf fimm stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark auk þess að bera hitann og þungan af varnarleik Magdeburg.
Þriðji Selfyssingurinn í leiknum, Haukur Þrastarson, skoraði fimm mörk og gaf fjórar stoðsendingar.
Blær markahæstur
Þótt Leipzig reki lestina í þýsku 1. deildinni þá leikur Blær Hinriksson við hvern sinn fingur. Hann skoraði sjö mörk og var markahæstur leikmanna Leipzig í átta marka tapi fyrir meisturum Füchse Berlin, 34:26, í Leipzig.
Dejan Milosavljev markvörður Berlínarliðsins reyndist Blæ og félögum erfiður. Hann átti annan stórleikinn í röð með 19 varin skot, 42%.
Óvæntur sigur
Heiðmar Felixson og félagar í Hannover-Burgdorf fremur óvæntan sigur á Lemgo á útivelli, 30:29. Lemgo-liðið hefur átt frábært tímabil til þessa meðan margt hefur verið Hannover-Burgorf mótdrægt. Heiðmar er aðstoðarþjálfari liðsins.
Einar Þorsteinn Ólafsson og samherjar í HSV Hamburg töpuðu fyrir Flensburg, 33:29. Einar Þorsteinn skoraði eitt mark auk þess að láta til sín taka í varnarleiknum. Flensborgarliðið hefur verið óstöðvandi á tímabilinu undir stjórn Slóvenans Aleš Pajović.
Arnór Þór Gunnarsson og liðsmenn Bergischer veittu THW Kiel harða mótspyrnu lengi vel í hafnarborginni. Heimamenn voru öflugir þegar upp var staðið og unnu með átta marka mun, 43:25.
Staðan:




