Óhætt er að segja að þýsku bikarmeistararnir Lemgo hafi sloppið með skrekkinn í kvöld þegar þeir mættu Íslandsmeisturum Vals og tókst að kreista út eins marks sigur, 27:26, eftir að hafa átt undir högg að sækja í 40 mínútur í fyrri viðureign liðanna í annarri umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik í Origohöllinni á Hlíðarenda.
Valsmenn voru þremur mörkum yfir, 17:14, að loknum fyrri hálfleik eftir að hafa verið mest fimm mörkum yfir, 11:6, um miðjan fyrri hálfleikinn.
Síðari leikur liðanna verður í Þýskalandi eftir viku.
Leikmenn Vals náðu mest sex marka forystu eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik, 23:17. Eftir það fjaraði aðeins undan leik Íslandsmeistaranna, ekki síst í sókninni. Sænski markvörðuinn Peter Johannesson varði einnig afar vel sem auðveldaði Valsmönnum ekki róðurinn á lokakaflanum. Leikmenn Lemgo sýndu tennurnar og náðu jafnt og þétt að jafna metin og komast yfir á endasprettinum. Valsmenn sýndu hetjulega baráttu frá upphafi til enda svo úr varð frábær handboltaleikur, sennilega einn af þeim betri sem hér hefur farið fram lengi.
Valsmenn léku frábæran varnarleik allan leikinn. Einar Þorsteinn Ólafsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson báru hitann og þungan af honum ásamt Magnúsi Óla Magnússyni og Alexander Erni Júlíussyni sem voru frábærir í bakvarðahlutverkinu.
Vörn Vals leiddi leikmenn Lemgo hvað eftir annað í eintóm vandræði og hirti svo af þeim boltann og skoruðu eftir hraðaupphlaup. Lemgomenn virtust ekki þola mótlætið vel, en það var greinilega meira en margir þeirra reiknuðu með.
Það setti vissulega strik í reikninginn að Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, fékk rautt spjald um miðjan fyrri hálfleik eftir að hafa rekist á Bjarka Má Elísson, markahæsta mann Lemgo, í hraðaupphlaupi. Kolrangur dómur hjá afleitum dómurum frá Lettlandi sem voru slökustu menn vallarins að þessu sinni.
Jonathan Carlsbogard, leikmaður Lemgo, fékk rautt spjald þegar hann felldi Alexander Örn Júlíusson, óvart á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks þegar Alexander brunaði fram í hraðaupphlaup. Óviljaverk en sennilega einn af fáum réttum dómum dómaranna í leiknum.
Bjarki Már fór fyrir Lemgomönnum. Hann var markahæstur með níu mörk úr jafnmörgum tilraunum.
Mörk Vals: Magnús Óli Magnússon 7, Agnar Smári Jónsson 6, Vignir Stefánsson 3, Tumi Steinn Rúnarsson 3/1, Finnur Ingi Stefánsson 2, Tjörvi Týr Gíslason 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1, Alexander Örn Júliusson 1, Stiven Tobar Vlanecia 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 4, 27% – Motoki Sakai 6, 30%.
Mörk Lemgo: Bjarki Már Elísson 9/4, Lukas Zerbe 6, Lukas Hutecek 5, Andrej Kogut 4, Isaias Guardiola 3.
Varin skot: Peter Johannesson 16, 38%.
Fylgst var með leiknum á handbolta.is í beinni textlýsingu.