Björgvin Páll Gústavsson, annar markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik, leikur í kvöld sinn 290. landsleik þegar íslenska landsliðið mætir ungverska landsliðinu í þriðju og síðustu umferð riðlakeppni Evrópumótsins. Hann er þar með orðinn fimmti landsleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi. Björgvin Páll fór upp fyrir Júlíus Jónasson í fyrrakvöld er hann lék sinn 289. landsleik.
Björgvin Páll er sá sem á lengstan feril með landsliðinu af þeim öllum. Hann er á 24. ári með landsliðinu. Guðjón Valur Sigurðsson er næstur á eftir með 22 ár. Fyrsti landsleikur Björgvins Páls var gegn Póllandi í Ólafsvík 1. nóvember 2003, 28:28. Þá var með honum markvörður landsliðsins, Guðmundur Hrafnkelsson sem er með flesta landsleiki fyrir Íslands hönd, 407.
Tíu leikjahæstu landsliðsmenn Íslands samkvæmt upplýsingum HSÍ:
| 1. | Guðmundur Hrafnkelsson | 407 |
| 2. | Guðjón Valur Sigurðsson | 364 |
| 3. | Geir Sveinsson | 340 |
| 4. | Ólafur Indriði Stefánsson | 330 |
| 5. | Björgvin Páll Gústavsson | 289 |
| 6. | Júlíus Jónasson | 288 |
| 7. | Róbert Gunnarsson | 276 |
| 8. | Valdimar Grímsson | 271 |
| 9. | Snorri Steinn Guðjónsson | 257 |
| 10. | Ásgeir Örn Hallgrímsson | 255 |
Nítjánda stórmótið
Evrópumótið sem nú stendur yfir er 19. stórmót Björgvins Páls með landsliðinu, þar af níunda Evrópumótið. Auk þess hefur hann tekið þátt í átta heimsmeistaramótum og tvennum Ólympíuleikum. Guðjón Valur hefur tekið þátt í flestum stórmótum íslenskra landsliðsmanna, 22.
Síðast lék landsliðið stórmót án Björgvins Páls þegar EM fór fram í Noregi í janúar 2008.
Stórmótaleikirnir Björgvins Páls eru 113. Hann er í öðru sæti á eftir Guðjóni Val sem lék 137 leiki á stórmótum með landsliðinu. Næstir á eftir Björgvini Páli eru Ólafur Stefánsson með 106 leiki og Ásgeir Örn Hallgrímsson 105.


