- Auglýsing -
Línumaðurinn og varnarjaxlinn Tinna Soffía Traustadóttir hefur framlengt samningi sínum við handknattleiksdeild Selfoss til tveggja ára. Tinna Soffía var einn af lykilmönnum Selfossliðsins í vetur sem leið, jafnt í vörn sem sókn, en hún tók skóna af hillunni fyrir tímabilið eftir sex ára fjarveru.
Svo föst var Tinna Soffía fyrir í vörninni að hún var valin varnarmaður ársins í Grill66-deild kvenna á verðlaunahófi HSÍ sem haldið var í síðustu viku.
Tinna Soffía skoraði 78 mörk í 20 leikjum með Selfossliðinu í Grill66-deildinni nýliðinni leiktíð. Selfoss vann deildina og leikur í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.
„Handknattleiksdeildin er gríðarlega ánægð með að Tinna skuli halda áfram og taka slaginn með liðinu í Olísdeildinni,“ segir m.a. í fréttatilkynningu frá handknattleiksdeild Selfoss sem barst í dag.
- Auglýsing -