Handknattleikskonan Tinna Valgerður Gísladóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Gróttu. Tinna Valgerður er fædd árið 2000 og er uppalin á Nesinu og hefur lengst af leikið undir merkjum Gróttu. Tímabilin 2021-2023 lék Tinna Valgerður með Olísdeildarliði Fram. Hún er örvhent og leikur ýmist sem skytta eða hornamaður.
Tinna Valgerður gekk á ný til liðs við Gróttu fyrir ár og hugðist leika með liðinu en flutti þess í stað til Þýskalands rétt áður en tímabilið hófst. Núna er hún komin til baka og mun væntanlega styrkja liðið mikið í baráttunni meðal bestu liða landsins í Olísdeildinni. Grótta vann sér sæti í Olísdeildinni í vor eftir sigur á Aftureldingu í umspili.
Er í skýjunum
„Ég er í skýjunum með að Tinna sé mætt aftur til okkar. Hún er mikill karakter og hjálpar okkur mikið næstu árin. Það verður gaman að vinna með henni og fylgjast með þegar deildin fer af stað,“ er haft eftir Sigurjóni Friðbirni Björnssyni þjálfara Gróttu í tilkynningu.
Konur – helstu félagaskipti 2024