- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tíu ára bið á enda, stjarna kvaddi og aðrar staðreyndir

Leikmenn Vipers Kristiansand fagna sigri í Meistaradeildinni á síðasta keppnistímabili. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Eftir tveggja ára bið fengum við loksins Final4 úrslitahelgi í Meistaradeild kvenna í handknattleik. Í lok helgarinnar var nafn nýs sigurliðs ritað í sögu keppninnar, Vipers Kristiansand, met voru sett og stórstjarna kvaddi.  Hér á eftir má lesa nokkur atriði sem stóðu uppúr eftir helgina.

Titilinn heldur til Norðurlanda eftir áratugar bið

Fyrir nokkrum árum réðu félagslið frá Skandinavíu lögum og lofum í Meistaradeild kvenna og þá sérstaklega dönsk lið. Frá árinu 2003 til 2011 var það aðeins rússneska liðið Zvezda sem rauf sigurgöngu norrænna liða þegar liðið vann úrslitaleikinn 2008.  Slagelse var fyrsta danska liðið til þess að vinna Meistaradeildina  2003/04 og aftur 2004/05 og 2006/07. Þá var komin röðin að Viborg sem vann keppnina 2005/06, 2008/09 og 2009/10 með Katrine Lunde í markinu.  Norska liðið Larvik vann Meistaradeildina 2010/11. Síðasta áratug hefur lið frá Norðurlöndunum ekki unnið keppnina fyrir en Vipers Kristianstad gerði það núna.  

Þrír leikmenn unnu sinn fimmta titil með þriðja félaginu

Vipers var eina liðið að þessu sinni ásamt Györ sem hafði leikmenn innan sinn raða sem höfðu tekið þátt í að vinna Meistaradeildina.

Katrine Lunde vann tvívegis með danska félaginu Viborg á árunum 2009 og 2010 og þá vann hún tvívegis með ungverska liðinu Györ 2013 og 2014. Nora Mørk var í sigurliði Larvik 2011 með Györ 2017, 2018 og 2019. Heidi Løke var líkt og Mørk hluti af liði Larvik sem vann 2011 auk þess að vera í liði  Györ 2013, 2014 og 2017.

Tveir leikmenn Vipers til viðbótar bættu við titla í safn sitt.  Jana Knedlikova sem var með Györ 2017 og 2019 og Linn Jörum Sulland sem var með Larvik 2011. Þá var Ole Gjekstad að stýra liði til sigurs í Meistaradeildinni í annað sinn en hann þjálfaði Larvik er liðið vann Meistaradeildina fyrir áratug.  

Gjekstad tók sér frí frá þjálfun 2015 en mætti aftur til leiks þremur árum síðar og tók við starfi þjálfara Vipers.

Sögulegt tímabil fyrir Frakkland

Þótt Brest Bretange hafi ekki tekist að vinna Meistaradeildina þá var tímabilið gott fyrir franskan kvennahandknattleik. Brest vann til silfurverðlauna í Meistaradeildinni og Nantes vann Evrópudeildina á dögunum.

Nýliðar áttust við í úrslitaleiknum

Vipers og Brest léku í fyrsta sinn í sögu sinni til úrslita í Meistaradeild kvenna á sunnudaginn. Áratugur er liðin síðan bæði lið sem leika til úrslita eru í fyrsta sinn í úrslitum en það var vorið 2011 þegar Larvik og SD Itxako léku til úrslita.

Ana Gros sækir að Kaurin Vilde Jonassen Hanna Maria Yttereng leikmönnum Vipers í úrslitaleik Vipers og Brest. Gros var markahæst í Meistaradeildinni á tímabilinu. Mynd/EPA

Ana Gros óstöðvandi og næsta stórstjarna verður til

Ana Gros, hægri skytta Brest varð markadrottning Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn. Hún skoraði 135 mörk á tímabilinu og hefur engin kona skorað svo mörg mörk á einu tímabili í Meistaradeildinni.

Þetta var síðasta keppnistímabil Gros með frönsku liðið í bili. Hún hefur leikið með Metz og Brest. Gros  gengur til liðs við rússneska liðið CSKA í sumar. Þó að Gros hafi verið markadrotting Meistaradeildarinnar þá náði hún ekki að vera markahæsti leikmaður úrslitahelgarinnar. Hanny  Reistad liðsmaður Vipers var markahæst með 22 mörk í tveimur leikjum ogvar auk þess valin besti leikmaður úrslitahelgarinnar. Reistad er yngsti leikmaðurinn til þess að hreppa nafnbótina í sögu Meistaradeildarinnar og um leið annar norski leikmaðurinn í röð en Kari Grimsbø var valin sú besta fyrir tveimur árum.

Sögulegir undanúrslitaleikir

Leikur Györ og Brest í undanúrslitum var ekki sá fyrsti sem fer í vítakeppni í Meistaradeild kvenna. Einu sinni áður hefur orðið að framlengja undanúrslitaleik. Það átti sér stað árið 2014 þegar að Buducnost og Vardar áttust við.  Þetta var þó í annað skiptið sem þurfti að grípa til vítakeppni í Final4. Vorið 2016 þegar að CSM Búkaresti vann Györ varð að grípa til vítakeppni til að knýja fram sigurvegara.

Henny Ella Reistad er að margra mati næsta stórstjarna í evrópskum handknattleik. Mynd/EPA

Drottning handboltans kveður og það með nýju meti

Eftir að hafa verið fimm sinnum í sigurliði Meistaradeildar, skorað yfir 1.000 mörk í keppninni auk þess að vera tvívegis markadrottning og einu sinni valin í úrvalslið Meistaradeildarinnar kvaddi Anita Görbicz Meistaradeildina eftir úrslitaleikinn á sunnudaginn.

Þessi frábæra handknattleikskona skráði nafn sitt enn einu sinni á spjöld sögunnar um helgina þegar hún jafnaði met Nycke Groot yfir flest mörk skoruð á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.  Þær stöllur hafa skorað alls 57 mörk hvor.

Görbicz var þó ekki sú eina sem kvaddi Györ eftir þessa helgi því það gerði hin brasilíska Eduarda Amorim einnig.  Amorim hefur líkt og Görbicz unnið titilinn fimm sinnum  með Györ og hefur leikið með ungverska liðinu í 12 ár. Þessi 34 ára gamla stórskytta mun færa sig yfir til rússneska liðsins Rostov-Don í sumar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -